Fótbolti

Draxler tryggði PSG fyrsta sigurinn með marki á síðustu stundu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Draxler reyndist hetja PSG í kvöld.
Draxler reyndist hetja PSG í kvöld. Xavier Laine/Getty Images

Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain voru tveimur mínútum frá því að spila þriðja leikinn í röð án sigurs og án þess að koma knettinum í netið. Þjóðverjinn Julian Draxler reyndist hetja liðsins í kvöld er liðið vann 1-0 heimasigur á Metz í frönsku úrvalsdeildinni. 

PSG hefur vægast sagt byrjað tímabilið herfilega en liðið var án stiga fyrir leik kvöldsins. Þá sauð allt upp úr í síðasta leik liðsins og fékk til að mynda brasilíska stórstjarnan Neymar rautt spjald og var því í banni er flautað var til leiks á Parc des Princes í kvöld.

Það stefndi í enn eitt afhroðið en stjörnur Parísarliðsins átti í stökustu vandræðum með Metz. Staðan markalaus í hálfleik og verkefni lærisveina Thomas Tuchel varð enn erfiðara þegar miðvörðurinn Abdou Diallo fékk sitt annað gula spjald á 65. mínútu leiksins. PSG því manni færri síðustu 25 mínúturnar og stefndi í að martröðin myndi engan endi taka.

Markalaust jafntefli virtist ætla að verða niðurstaðan allt þangað til á þriðju mínútu uppbótartíma þegar Julian Draxler skaut upp kollinum og skoraði eina mark leiksins.

Lokatölur því 1-0 og fyrsti sigur PSG í frönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð staðreynd. Liðið nú með þrjú stig eftir þrjár umferðir en þetta var einnig fyrsta markið sem liðið skorar. PSG er sem stendur í 15. sæti deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.