Innlent

Covid-smit hjá starfsmönnum tveggja íbúðakjarna fyrir fatlað fólk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Um er að ræða starfsmenn við íbúðarkjarna fyrir fatlað fólk í Grafarvogi og Breiðholti.
Um er að ræða starfsmenn við íbúðarkjarna fyrir fatlað fólk í Grafarvogi og Breiðholti. Vísir/Vilhelm

Tveir starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Reykjavík hafa greinst með Covid-19. Gripið hefur verið til nauðsynlegra aðgerða með það að leiðarljósi að hefta frekara smit, án þess að skerða þjónustu við íbúa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Um er að ræða tvo starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Breiðholti og Grafarvogi. Báðir starfa þeir náið með einstaklingum sem þurfa sólarhringsþjónustu.

Eins og fram kom á Vísi fyrir hádegi greindust þrettán Covid-19 smit innanlands í gær og var aðeins einn í sóttkví. Ekki hafa fleiri greinst með veiruna á einum sólarhring síðan í byrjun ágúst.

Tryggja áfram þjónustu og stuðning

„Aðgerðaáætlun vegna smitanna hefur verið unnin í nánu samstarfi við smitrakningateymi Almannavarna og Embætti landlæknis en neyðarstjórn velferðarsviðs hélt samráðsfund í morgun þar sem línur voru lagðar um næstu skref,“ segir í tilkynningunni.

Tryggt verði að íbúar fái áfram þá þjónustu og stuðning sem þeir þurfi á að halda við sitt daglega líf. Íbúar kjarnanna tveggja búa allir í eigin íbúðum og fá því alla nauðsynlega þjónustu inn á sín heimili.

Í íbúðakjarnanum í Grafarvogi þurfa sex starfsmenn að fara í sóttkví og um 20 í Breiðholti. Unnið er að því að manna vaktirnar með öðru starfsfólki velferðarsviðs. Báðir íbúarnir sem fengu þjónustu viðkomandi starfsmanna eru komnir í sóttkví. Þeir fara í sýnatöku í dag og fylgst verður náið með líðan þeirra.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar rekur um 70 heimili og dvalarstaði þar sem haldið er úti órofinni þjónustu allan sólarhringinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×