Fótbolti

Ashley í „stríð“ við ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Ashley, eigandi Newcastle United, er ekki vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins sem haga lengi viljað losna við hann.
Mike Ashley, eigandi Newcastle United, er ekki vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins sem haga lengi viljað losna við hann. Getty/James Williamson

Eigandi Newcastle United ætlaði að vera búinn að selja félagið og er mjög ósáttur út í framgöngu ensku úrvalsdeildarinnar í hans máli.

Mike Ashley, eigandi Newcastle United, ætlar að lögsækja ensku úrvalsdeildina vegna þess að sala hans á félaginu varð að engu í sumar. Independent slær þessu upp og aðrir enskir miðlar fjalla líka um málið.

Mike Ashley hefur þegar ráðið sér lögfræðinga í fremstu röð til að fara með mál hans. Ashley heldur því fram að enska úrvalsdeildin hafi ekki haft neina rétt á því að loka á söluna. Blackstone Chambers lögfræðistofan er komið með málið í sínar hendur.

Kaupendurnir áttu að vera Saudi Arabia's Public Investment Fund og eigendahópur undir stjórn Amöndu Staveley. Sádarnir áttu að eignast 80 prósent en hinn hópurin hin tuttugu prósentin.

Í síðustu viku sagðist enska úrvalsdeildin vera bæði vonsvikin með og hissa á því að Newcastle væri að saka stjórnendur deildarinnar um að hafa ekki hagað sér á réttan hátt hvað varðar yfirtöku fjárhagsfélagsins frá Sádí Arabíu.

Newcastle hafði þá sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið sakaði Richard Masters, framkvæmdastjóra ensku úrvalsdeildarinnar, um að hafa ekki unnið að málinu á viðeigandi hátt. Mannréttindabrot í Sádí Arabíu sem og ólöglegt streymi af leikjum ensku úrvalsdeildarinnar í landinu voru það sem stoppaði kaupin.

Þessi málsókn er dæmi um orðastríð sem hefur magnast á milli Newcastle United og ensku úrvalsdeildarinnar síðan að ekkert varð að kaupunum í júlí.

Mike Ashley er ekki enn búinn að gefa upp vonina um að geta selt Sádunum Newcastle United fyrir 300 milljónir punda eða rúma 52 milljarða íslenskra króna. Hann virðist líta á sem svo að lögsóknin muni hjálpa honum að ná því fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×