Innlent

„Það er ekki mannúðlegt að halda fólki svona lengi í óvissu“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Katrín segist telja að heildar dvalartími ætti að hafa meira að segja í ákvörðunum um brottvísanir.
Katrín segist telja að heildar dvalartími ætti að hafa meira að segja í ákvörðunum um brottvísanir.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur ekki mannúðlegt að halda fólki sem sækir hér um alþjóðlega vernd í óvissu jafn lengi og gert hefur verið í máli egypskrar fjölskyldu sem til stendur að senda úr landi næsta miðvikudag. Dómsmálaráðherra hefur sagt að ekki verði gerð reglugerðarbreyting til bjargar einstaka fjölskyldum.

Þetta kom fram í máli hennar í Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

„Það hefur verið styttur málsmeðferðartíminn, sem er mjög mikilvægt. Því það er ekki mannúðlegt að halda fólki svona lengi í óvissu, sérstaklega í börnum. Í þessu tilviki sem um ræðir, þó að málsmeðferðartíminn sé innan marka, þá erum við samt, af einhverjum ástæðum, sem mér finnst auðvitað ekki boðlegt, með þetta fólk hér í raun og veru í allt of langan tíma sem er ómannúðlegt,“ segir Katrín.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur sagt að málsmeðferðartími fjölskyldunnar, sem þó hefur dvalist hér í 25 mánuði, sé innan marka til að unnt sé að neita fjölskyldunni um vernd og vísa aftur til Egyptalands. Hámarkstími málsmeðferðar var styttur úr 18 mánuðum í 16 fyrr á þessu ári.

„Hér hefur dómsmálaráðherra sagt „Málsmeðferðartíminn, hann er innan marka,“ en þá segi ég að við þurfum auðvitað að skoða það af hverju þessi tími lengist svona eins og raun ber bitni. Og það er ekki boðlegt.

Aðspurð segir Katrín að markmið ríkisstjórnarinnar sé að lögin séu mannúðleg. Lögin séu ekki gömul, en þau tóku gildi 2016.

„Um leið erum við líka bundin af Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og við verðum að taka tillit til hagsmuna barna. Þess vegna segi ég, það er auðvitað ekki boðlegt fyrir fólk, sem er þá búið að fá úrlausn sinna mála í þessu kerfi okkar, búið að fá einhvern úrskurð, að þá líði og bíði.“

Hún segist þá sammála þeim sjónarmiðum að miða eigi við heildar dvalartíma umsækjenda á Íslandi en ekki málsmeðferðartíma, þegar ákvarðanir um brottvísanir eru annars vegar.

„Við þurfum að skoða hvernig við getum tekist á við það verkefni. Því fyrir þessi börn skiptir engu máli hvort þetta er hluti af málsmeðferðartíma eða heildartíma, og ekki bara þessi börn heldur fyrir alla í sömu stöðu.“

Hér að ofan má hlusta á hljóðbrot úr Sprengisandi.


Tengdar fréttir

Segir að verið sé að brjóta á grundvallarmannréttindum barnanna

Skólastjóri Háaleitisskóla segist ekki geta hugsað til þess að þremur börnum í skólanum verði vísað úr landi í næstu viku. Verið sé að brjóta á grundvallarmannréttindum barnanna og hann geti ekki setið hjá þegar slíkt er um það bil að eiga sér stað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.