Innlent

Segja um­mæli Ás­laugar ein­kennast af „kald­lyndi og ó­nær­gætni“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Áslaug sagði ekki koma til greina að gera reglugerðarbreytingu til að bjarga einstaka fjölskyldum.
Áslaug sagði ekki koma til greina að gera reglugerðarbreytingu til að bjarga einstaka fjölskyldum. Vísir/Vilhelm

Stjórn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmar ummæli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í fréttum RÚV þar sem hún sagði ekki koma til greina að gera reglugerðarbreytingu til að „bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.“

Vísaði Áslaug þar til máls egypskrar fjölskyldu sem dvalið hefur á Íslandi í 25 mánuði en stendur nú til að flytja úr landi í næstu viku.

„Stjórn Solaris furðar sig á kaldlyndi og ónærgætni í ummælum ráðherra um fólk í neyð sem lýsa algjöru skilningsleysi á því óöryggi, ótta, örvæntingu og óvissu sem flóttafólk býr við,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórn Solaris harmar ummæli dómsmálaráðherra sem einkennast af kaldlyndi og ónærgætni!

„Þá hafnar stjórn Solaris tilraun ráðherra til þess að frýja sig ábyrgð í málaflokki sem hann ber ábyrgð á og hvetur ráðherra til þess beita sér fyrir því strax að öll börn sem hafa verið hér í svo langan tíma eins og tvö ár eru fyrir börn fái hér skjól og vernd. Það á við um Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa eins og önnur börn í svipaðri stöðu sem hafa fest hér rætur og upplifa sig sem hluta af samfélaginu. Það er með öllu óásættanlegt að komið sé fram við börn í viðkvæmri stöðu með þeim ómannúðlega og óskiljanlega hætti sem brottvísun á slíkum tímapunkti er. Við hljótum öll að vera sammála um það,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

Þá vill stjórn samtakanna koma því á framfæri við Áslaugu að „það væri óskandi að stjórnvöld settu sér stefnu í málefnum fólks á flótta sem byggir á mannúð, samkennd og mannréttindum. Það yrði ef til vill til þess að fólk neyddist ekki til þess að fara með sín viðkvæmu málefni í fjölmiðla, sem er staða sem enginn finnur sig í án þess að vera neyddur til þess af örvæntingu.“


Tengdar fréttir

„Ólöglegt, siðferðilega rangt og ómannúðlegt“

Flytja á sex manna barnafjölskyldu frá Eygyptalandi, sem dvalið hefur á Íslandi í meira en tvö ár, úr landi í næstu viku. Fyrirhugaður flutningur hefur tekið mikið á börnin sem tala nú góða íslensku og hafa aðlagast vel



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×