Innlent

„Þetta er ansi yfirþyrmandi ástand“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Formaður Íslendingafélagsins í Norður- Kaliforníu segir skógareldana á svæðinu hafa haft gríðarlega eyðileggingu í för með sér. Tuga er saknað í Oregon- ríki vegna skógar- og gróðureldanna sem loga þar og tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Alls loga hundrað aðskildir eldar í 12 ríkjum Bandaríkjanna og einna mest í Wasington og Kaliforníu. Formaður Íslendingafélagsins í Norður-Kaliforníu er búsett í Oakland sem er við austurstönd San -Francisco flóa. Hún segir loftmengun á svæðinu hafa verið gríðarleg síðustu daga.

Ragna Árný Lárusdóttir formaður Íslendingafélagsins í Norður-KaliforníuVísir

„Það eru eldar sem umkringja allt flóa svæðið þannig að það kemur reykur alls staðar frá. Þá er búið að setjast óvenju mikið að ryki því það er nánast enginn vindur á svæðinu. Loftgæðin eru því alveg hræðileg og síðustu daga hefur fólk verið beðið að halda sig inni. Það eru ekki bara skógar-og gróður sem brenna hér allt í kring heldur líka húsnæði verksmiðjur, bílar þannig að það eru alls konar eiturefni sem blandast inní þetta,“ segir Ragna.  

Ragna segir ástandið óvenju slæmt núna en síðustu ár hafa skógareldar geysað á hverju hausti. 

„Skógareldarnir hafa venjulega byrjað seinna. Það sem er hræðilegt núna er að ef það fer ekki að rigna geta komið fleiri eldar allt fram í nóvember. Þetta er ansi yfirþyrmandi ástand,“ segir Ragna.   

Hún segir að þetta leggist ofan á fleiri áföll eins og kórónuveirufaraldurinn.

Nú er fjöldi fólks sem þarf að yfirgefa heimili sín vegna eldanna og hafast við í skemmum. Þar er ekki hægt að viðhafa tveggja metra reglu eða passa uppá sóttvarnir eins og þarf í þessum faraldri,“ segir Ragna.  

Yfirvöld í Oregon-ríki í Bandaríkjunum segja að sex manns hafi látist og tuga sé saknað vegna skógar- og gróðureldanna sem loga þar, fjöldi heimila hefur brunnið til grunna en allt að 40 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín, hálf milljón manns eru í viðbragðsstöðu og 2.5 milljón hektarar lands hafa brunnið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×