Íslenski boltinn

Kefla­vík skellti ÍBV, Leiknir hafði betur gegn Fá­skrúðs­firðingum en Fram mis­steig sig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Keflvíkingareru í góðum málum í Lengjudeildinni.
Keflvíkingareru í góðum málum í Lengjudeildinni. vísir/vilhelm

Fimm leikjum er lokið í Lengjudeild karla í knattspyrnu en stórleikur dagsins fór fram í Eyjum þar sem Keflavík skellti ÍBV.

Joey Gibbs kom Keflavík yfir á 10. mínútu og þannig stóðu leikar þangað til á 85. mínútu. Kian Williams skoraði þriðja markið mínútu síðar.

Jón Jökull Hjaltason minnkaði muninn í 3-1 fyrir ÍBV í uppbótartímanum en nær komust þeir ekki.

Keflavík er í 2. sæti deildarinnar með 30 stig, einu stigi á eftir Fram en eiga þó leik til góða. ÍBV er í 4. sætinu með 25 stig og er að dragast aftur úr.

Topplið Fram gerði jafntefli á heimavelli fyrir Vestra á heimavelli. Vestri komst yfir á 87. mínútu með marki Péturs Bjarnasonar en Framarar léku einum manni færri frá því á 18. mínútu er Fred fékk beint rautt spjald.

Gunnar Gunnarsson jafnaði metin í uppbótartímanum og tryggði Fram stigi. Fram er því áfram á toppnum með tveimur meira en Keflavík en Vestri er í sjöunda sætinu með 20 stig.

ReykjavíkurLeiknir vann nafnaslaginn er Fáskrúðsfirðingar komu í heimsókn. Sævar Atli Magnússon kom Leikni í 2-0 með tveimur mörkum í fyrri hálfleikur en Arkadiusz Grelak minnkaði muninn tólf mínútum fyrir leikslok.

Víkingur Ólafsvík og Grindavík gerðu 2-2 jafntefli. Aron Jóhannsson kom Grindavík í 2-0 í fyrri hálfleik en Harley Willard minnkaði muninn á 52. mínútu.

Josip Zeba fékk svo rautt spjald á 70. mínútu en þremur mínútum síðar jafnaði Gonzalo Zamorano metin. Lokatölur 2-2.

Grindavík er í 6. sæti með 22 stig en Víkingur Ólafsvík er tveimur sætum neðar með 16 stig.

Þór vann svo 3-2 sigur á Aftureldingu. Jason Daði Svanþórsson kom Aftureldingu yfir en Alvaro Montejo skoraði tvö mörk fyrir hlé og Guðni Sigþórsson skoraði eitt.

Þórsarar leiddu því 3-1 í hálfleik en Kári Steinn Hlífarsson minnkaði muninn í 3-2 á 68. mínútu. Nær komust Aftureldingarmenn ekki og lokatölur 3-2.

Þór er í 5. sætinu með 23 stig en Afturelding er í 9. sætinu með fimmtán stig.

Úrslit eru fengin frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×