Fótbolti

Rýnt í landsliðshópinn: „Af hverju ekki að gefa þessari stelpu tækifæri?“

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar. VÍSIR/VILHELM

Margrét Lára Viðarsdóttir og Mist Rúnarsdóttir eru sammála um það að nýliðinn Sveindís Jane Jónsdóttir verðskuldi sæti í byrjunarliði Íslands gegn Lettlandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli næsta fimmtudag.

Sveindís og Barbára Sól Gísladóttir eru nýliðar í landsliðshópnum sem kynntur var í dag.

„Ég er sátt. Mér finnst þetta flottur hópur og þetta eru allt leikmenn sem hafa verið að spila vel. Mér finnst frábært að frammistaða Barbáru og Sveindísar í deildinni í sumar sé að skila þeim inn í þennan hóp. Það er gaman að sjá þær þar sem nýliða,“ sagði Mist í Pepsi Max mörkunum í kvöld.

„Það eru náttúrulega leikmenn að spila í Svíþjóð, eins og Guðrún Arnardóttir hjá Djurgården sem hefur gengið ansi vel, og Anna Rakel. Ég hef ekki séð það mikið til þeirra að ég sé dómbær á það hvort þær eigi að vera í hópnum eða ekki, en þær hljóta að vera kandídatar,“ sagði Margrét Lára, og minntist einnig á Hólmfríði Magnúsdóttur sem staðið hefur sig vel fyrir Selfoss:

Af hverju var Hólmfríður ekki valin?

„Mér finnst Hólmfríður búin að eiga mjög góða leiktíð, sérstaklega undanfarið. Maður spyr sig hvort að hún sé inni í myndinni eða ekki,“ sagði Margrét.

„Er hún ekki búin að vera út úr myndinni í þrjú ár? Mér finnst alltaf eins og að hún þyki of gömul fyrir landsliðið,“ sagði Helena Ólafsdóttir, og Mist svaraði:

„Hún er búin að eiga frábært tímabil hérna heima þannig að hvað frammistöðu varðar er hún klárlega leikmaður sem gæti verið í þessum hópi. Það er spurning af hverju hún er ekki valin.“

Sér Sveindísi fyrir sér á öðrum kantinum

Þær voru þó sammála um að leikmannahópurinn væri vel valinn:

„Hópurinn sem slíkur er mjög flottur. Heitasta nafnið, sem við erum kannski spenntastar fyrir, er Sveindís. Það verður spennandi að sjá hvernig hún kemur inn og hvaða hlutverk hún fær. Ég sé hana alveg fyrir mér geta byrjað annan hvorn leikinn, ef ekki báða. Frammistaða hennar í sumar vísar alveg til þess, og þá sé ég hana fyrir mér á öðrum hvorum kantinum,“ sagði Margrét, og Mist tók undir:

„Við rennum svolítið blint í sjóinn en af hverju ekki að gefa þessari stelpu tækifæri, og koma með smá X-faktor í þetta. Látum hana spila fyrri leikinn, gegn Lettum, og tökum svo stöðuna fyrir þann seinni.“

Þær rýndu einnig í mögulegt byrjunarlið Íslands í leikjunum við Lettland og Svíþjóð en erfiðara en oft áður er að segja til um hvernig það mun líta út.

Klippa: Pepsi Max mörkin - Umræða um landsliðið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×