Innlent

Skoða hvort kæra eigi niðurrifið til lögreglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Skólavörðustíg 36 á tíunda tímanum í morgun. Fundað verður um málið í dag.
Frá Skólavörðustíg 36 á tíunda tímanum í morgun. Fundað verður um málið í dag. Vísir/Baldur

Framkvæmdir við Skólavörðustíg 36, þar sem friðað hús var rifið í gær, hafa verið stöðvaðar. Byggingarfulltrúi segir að verið sé að skoða hvort grundvöllur sé fyrir því að kæra málið til lögreglu.

Húsið var reist árið 1922 og hýsti um árabil búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmann. Húsið nýtur svokallaðar verndar byggðamynsturs og er þannig friðað. Nikulás Úlfar Más­son, bygg­ing­ar­full­trúi Reykja­vík­ur, sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki hefði legið fyrir leyfi til að rífa húsið.

Nikulás segir í samtali við Vísi nú í morgun að málið sé litið mjög alvarlegum augum. Borgin skoði nú hvernig brugðist verði við niðurrifinu.

„Í fyrsta lagi þarf eigandinn að bregðast við með því að senda okkur erindi um það sem hefur gerst og hvað hann hyggst gera í staðinn. Hvað við sem stjórnvöld og leyfisveitendur gerum, það er verið að skoða það,“ segir Nikulás.

Svona leit húsið út í júlí 2019.Skjáskot/Ja.is

Hann segir málið minna á það þegar svokallað Exeter-hús var rifið við Tryggvagötu 12 í Reykjavík árið 2016. Húsið naut lögbundinnar friðunar vegna aldurs. Greint var frá því í fyrra að héraðssaksóknari hefði ákært annan framkvæmdastjóra byggingafyrirtækisins Mannverks fyrir að láta rífa húsið.

„Svipað gerðist niðri á Tryggvagötu í Exeter-húsinu á sínum tíma. Þá kærðum við það til lögreglu og það er hreinlega verið að skoða hvort það sé leið í þessu máli,“ segir Nikulás.

Fundað verður um Skólavörðustígsmálið dag, að sögn Nikulásar. Eig­andi hússins sagði í samtali við Morgunblaðið að öll tilskilin leyfi hefðu legið fyrir og að verkið hefði verið unnið í fullu samráði við eftirlitsaðila.

Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar.Vísir/baldur

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×