Erlent

Assange skipað að hafa sig hægan í dómsal

Kjartan Kjartansson skrifar
Sendiferðabíl með plakati þar sem framsali Assange til Bandaríkjanna var mótmælt var lagt fyrir utan Old Bailey-dómshúsið í London í dag.
Sendiferðabíl með plakati þar sem framsali Assange til Bandaríkjanna var mótmælt var lagt fyrir utan Old Bailey-dómshúsið í London í dag. AP/Kirsty Wigglesworth

Dómari í London varaði Julian Assange, stofnanda Wikileaks við því að hann yrði fjarlægður úr dómsal og réttað yrði yfir honum fjarstöddum ef hann héldi áfram að trufla réttarhöldin í dag. Assange kallaði fram í fyrir lögmanni Bandaríkjastjórnar sem sækist eftir að fá hann framseldan frá Bretlandi.

Réttarhöldin yfir Assange hófust upphaflega í febrúar en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Þeim var haldið áfram á mánudag. Bandaríkjastjórn sakar Assange um að hafa lagt á ráðin um að brjótast inn í tölvu alríkisstjórnarinnar og stela trúnaðarskjölum sem Wikileaks birti árin 2010 og 2011.

Þegar lögmaður Bandaríkjastjórnar sagði vitni að hún falaðist eftir framsali Assange vegna þess að hann birti nöfn uppljóstrara, ekki vegna þess að hann hefði lekið skjölum kallaði Assange fram í fyrir honum. „Kjaftæði,“ heyrðist frá sakamannabekknum þar sem Assange situr, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Vanessa Baraitser, dómarinn í málinu, benti Assange þá á að hann ætti ekki að tala jafnvel þó að hann væri ósammála því sem kæmi fram.

„Ef þú truflar réttarhöldin og truflar vitni sem er að bera fram sönnunargögn á viðeigandi hátt stendur það mér til boða að halda áfram að þér fjarstöddum,“ sagði Baraitser sem tók fram að henni hugnaðist sá möguleiki ekki og því varaði hún Assange við.

Skjölin sem Wikileaks birti á sínum tíma komu meðal annars úr utanríkisþjónustu Bandaríkjanna. Fjölmiðlar víða um heim unnu upp úr gögnunum en Assange og Wikileaks birtu frumgögnin einnig. Bandaríkjastjórn segir að með því hafi Assange stefnt lífi uppljóstrara, andófsfólks og baráttufólks fyrir mannréttindum í fjölda ríkja í hættu, þar á meðal í Írak, Íran og Afganistan.


Tengdar fréttir

Réttarhöld hefjast á ný yfir Julian Assange

Réttarhöld hefjast að nýju í dag í London yfir Julian Assange, stofnanda Wikileaks, en tekist er á um það hvort það skuli framselja hann til Bandaríkjanna þar sem hann gæti átt yfir höfði sér 175 ára fangelsi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.