Innlent

„Ef við hefðum vitað betur, þá hefðum við aldrei farið“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lára segir að hún hefði aldrei farið í heimsóknina afdrifaríku ef hún hefði vitað að Foden og Greenwood væru í sóttkví.
Lára segir að hún hefði aldrei farið í heimsóknina afdrifaríku ef hún hefði vitað að Foden og Greenwood væru í sóttkví. Skjáskot/Getty

Lára Clausen, sem fór ásamt Nadíu Sif Líndal, í heimsókn á hótelherbergi ensku knattspyrnulandsliðsmannanna Phil Foden og Mason Greenwood í gærkvöldi, birti í kvöld röð myndbanda á Instagram-síðu sinni þar sem hún segist ekki hafa vitað að leikmennirnir hafi verið í sóttkví.

Þá gengst hún við því að hafa tekið upp samskipti sín og Nadíu við leikmennina. Myndefnið komst í dreifingu á samfélagsmiðlum og voru leikmennirnir reknir úr landsliðshópi Englands fyrir brot á reglum um sóttkví.

Í myndböndunum sem Lára birtir segist hún vilja stíga fram og segja frá sinni hlið þar sem málið hafi vakið mun meiri athygli en hún hefði getað hugsað sér.

„Til að svara aðalspurningunni, ég er manneskjan sem tók strákana upp og tók allt þetta situation [aðstæður] upp,“ segir Lára og bætir við að það hafi verið stór mistök.

Þá kveðst Lára alls ekki hafa áttað sig á því hversu frægir Foden og Greenwood væru raunverulega. Það hafi verið hugsunarleysi að birta myndefni af leikmönnunum á samfélagsmiðlum.

„Ég fylgist ekkert með fótbolta og hef aldrei gert. Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað ég var að setja á netið,“ segir Lára sem kveðst hafa þurft að læra það upp á erfiða mátann að ekki allt eigi heima netinu.

Þá kveðst Lára ekki hafa vitað að leikmennirnir hafi verið í sóttkví, en það hefur Nadía einnig sagt. Lára segir að aldrei hefði orðið af hótelheimsókninni ef sóttkví þeirra Foden og Greenwood hefði verið uppi á borðunum.

„Ef við hefðum vitað betur, þá hefðum við aldrei farið vitandi að þeir væri í sóttkví.“


Tengdar fréttir

Foden biður alla nema Íslendinga afsökunar

Enski landsliðsmaðurinn Phil Foden hefur sent frá sér afsökunarbeiðni eftir að hafa brotið reglur um sóttkví á Íslandi með því að hitta tvær íslenskar konur á hóteli enska landsliðsins.

Nadía Sif tjáir sig: „Ég lak engu til fjölmiðla“

Nadía Sif Líndal, önnur kvennanna sem heimsótti ensku landsliðsmennina Phil Foden og Mason Greenwood á Hótel Sögu í gær segist ekki hafa lekið myndefni frá samskiptum sínum við þá til fjölmiðla.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.