Enski boltinn

Hvernig verður byrjunarlið Chelsea í vetur?

Ísak Hallmundarson skrifar
Kai Havertz er einn af fimm leikmönnum sem Chelsea hefur keypt í sumar.
Kai Havertz er einn af fimm leikmönnum sem Chelsea hefur keypt í sumar. getty/Darren Walsh

Eftir að hafa verið í félagsskiptabanni síðasta sumar hefur enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea farið hamförum á félagsskiptamarkaðinum í ár. Alls hefur liðið keypt fimm leikmenn og er orðað við fleiri.

Hakeem Ziyech er kominn frá Ajax, Kai Havertz frá Leverkusen, Timo Werner frá RB Leipzig, Thiago Silva frá PSG og Ben Chilwell frá Leicester.

Goal.com veltir fyrir sér hvernig Frank Lampard muni stilla upp byrjunarliðinu í vetur, en það er úr nægum kostum að velja.

Hann getur t.a.m. stillt upp í 4-3-3 með Timo Werner fremstan og Ziyech og Pulisic á vængjunum. Þá væru N'Golo Kante, Mason Mount og Kai Havertz á miðjunni og Ben Chilwell, Kourt Zouma, Thiago Silva og Cesar Azpilicueta í varnarlínunni. Í sömu uppstillingu gæti hann haft Kai Havertz á öðrum hvorum vængnum í stað Zieych eða Pulisic. 

Ef hann myndi stilla upp í 3-4-3 gæti hann látið Antonio Rudiger, Thiago Silva og Azpilicueta mynda varnarlínu, verið með Kovacic og Kante á miðjunni, Chilwell og Reece James á köntunum og sóknarlínan væri Havertz, Werner og Ziyech. 

Þetta er auðvitað aðeins lítið brot af mögulegum byrjunarliðum Chelsea í vetur og verður áhugavert að fylgjast með hvort liðinu takist að veita Liverpool og Manchester City einhverja samkeppni á komandi tímabili í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×