Fótbolti

Bale myndi íhuga endurkomu til Englands ef Real leyfir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gareth Bale nýtur þess að æfa með Wales þessa dagana.
Gareth Bale nýtur þess að æfa með Wales þessa dagana. Vísir/Getty Images

Gareth Bale var í viðtali hjá Sky Sports í kvöld. Þar segir Walesverjinn að hann myndi skoða þann möguleika á að spila aftur í Englandi ef hann stæði til boða. Félag hans, Spánarmeistarar Real Madrid, séu hins vegar ekki á því að leyfa honum að fara.

Hinn 31 árs gamli Bale viðurkenndi að það væri gaman að vera þar sem hann er mikilsmetinn. Eitthvað sem Bale finnst hann ekki vera í herbúðum Real Madrid. Hann er nú staddur með landsliði Wales sem undirbýr sig fyrir leiki gegn Finnlandi og Búlgaríu í Þjóðadeildinni.

Bale segir að hann myndi glaður skoða þann möguleika að spila aftur í ensku úrvalsdeildinni en hann lék með Tottenham Hotspur og Southampton á sínum tíma. Real standi hins vegar í vegi hans.

„Ég reyndi að fara síðasta sumar en þeir komu í veg fyrir það. Það hafa komið önnur tilfelli þar sem ég hef reynt að fara en félagið leyfir það ekki. Þetta er þeirra höndum,“ segir Bale til að mynda í viðtalinu við Sky Sports.

„Ég vill spila fótbolta. Ég er hungraður í að spila en félagið ræður öllu. Ég er samningsbundinn. Það eina sem ég get gert er að halda áfram að gera það sem ég er að gera og vonandi kemur eitthvað upp. Ég er aðeins 31 árs en mér líður frábærlega og að ég hafi enn mikið upp á að bjóða. Þetta er í höndum félagsins en þeir hafa gert hlutina frekar erfiða ef ég á að vera hreinskilinn.“

Að lokum sagðist Bale vera spenntur fyrir komandi landsleikjum og segir þá vera fínan undirbúning fyrir Evrópumótið sem fram fer næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×