Enski boltinn

Kom á sama tíma og Gylfi til Everton og fékk nýjan fimm ára samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Michael Keane fagna saman marki Everton á móti Liverpool.
Gylfi Þór Sigurðsson og Michael Keane fagna saman marki Everton á móti Liverpool. Getty/Clive Brunskill

Miðvörðurinn Michael Keane hefur gert nýja fimm ára samning við Everton sem nær nú til ársins 2025.

Michael Keane er í enska landsliðshópnum sem mætir til Íslands í lok vikunnar en fram undan er leikur í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum á laugardaginn.

Hann mætir þó ekki liðsfélaga sínum Gylfa Þór Sigurðssyni í leiknum þar sem Gylfi gaf ekki kost á sér í leikinn þar sem hann vildi frá tækifæri til að vinna sér sæti í Everton liðinu.

Everton keypti Michael Keane sama sumar og félagið keypti Gylfa. Michael Keane kom í júlí frá Burnley fyrir 25 milljónir punda en Gylfi kom frá Swansea í ágúst fyrir 40 milljónir punda.

Michael Keane er reyndar fjórum árum yngri en Gylfi, fæddur árið 1993. Það hefur örugglega mikið að segja að hann sé að fá þennan langa samning núna.

„Ég á bestu árin mín eftir. Ég hef elskað þessi þrjú ár hjá Everton og hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég von að við getum staðið okkur á þessu tímabili og gert stuðningsmenn okkar stolta á ný,“ sagði Michael Keane.

Michael Keane er ánægður með knattspyrnustjórann Carlo Ancelotti sem tók við liði Everton í desember en undir hans stjórn endaði liðið í tólfta sæti á síðustu leiktíð.

„Ég er að læra á hverjum degi á æfingavellinum með stjóranum og hans starfsfólki. Þeir hafa verið frábærir og kom því vel til skila hvernig þeir vilja að við spilum. Þessi stjóri er einn af þeim bestu,“ sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×