Erlent

Rifu niður styttu af fyrsta for­­sætis­ráð­herranum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Styttan sem um ræðir.
Styttan sem um ræðir. Mynd/Getty

Mótmælendur í borginni Montreal í Kanada felldu í gær styttu af Sir John A. Macdonald, fyrsta forsætisráðherra landsins. Mótmælendurnir segja hann hafa verið hluta af mótun grimmilegrar stefnu sem leiddi til dauða fjölda innfæddra Kanadabúa seint á 19. öld.

Á samfélagsmiðlum hafa birst myndbönd af því þegar styttan var rifin niður. Við það losnaði höfuð styttunnar af og heyra mátti mikinn fögnuð viðstaddra þegar hún féll til jarðar.

Forsætisráðherra Québec, fylkisins þar sem Montreal er staðsett, hefur fordæmt athæfi mótmælendanna.

„Að eyðileggja hluta úr sögu okkar er engin lausn,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir François Legault forsætisráðherra.

Lögreglan hefur ekki handtekið neinn vegna málsins.

Macdonald var forsætisráðherra Kanada á árunum 1867 til 1873 og aftur frá 1878 til 1891. Hann lagði meðal annars grunninn að svæðisskólakerfi Kanada. Í meira en öld var kerfið notað til þess að fjarlægja yfir 150.000 innfædd börn af heimilum sínum og flytja þau í heimavistarskóla á vegum ríkisins.

Í skólunum var innfæddum börnum bannað að tala móðurmál sitt og lifa eftir sinni menningu. Þá voru mörg barnanna misnotuð og sum dóu í skólunum. Í skýrslu sem kanadíska ríkisstjórnin gaf út árið 2015 voru aðfarirnar kallaðar „menningarlegt þjóðarmorð.“

Þá hefur Macdonald verið sakaður um að leyfa hungursneyð og sjúkdómum að grassera í samfélögum innfæddra. Ríkisstjórn hans er sögð hafa neytt samfélög innfæddra til þess að yfirgefa heimaslóðir sínar með því að neita þeim um mat og vistir uns fólkið færði sig um set.


Tengdar fréttir

Fjarlægja styttur af Kristófer Kólumbus

Tvær styttur af 15. aldar landkönnuðinum Kristófer Kólumbus hafa verið teknar niður í bandarísku borginni Chicago, að skipun borgarstjórans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×