Fótbolti

Þrír leikmenn landsliðsins fara ekki með til Belgíu: Valsmenn settu pressu á KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson með Guðna Bergssyni, formanni KSÍ.
Hannes Þór Halldórsson með Guðna Bergssyni, formanni KSÍ. Vísir/Vilhelm

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, valdi 25 leikmenn í hópinn á móti Englandi og Belgíu en ekki 22 því þrír leikmenn fara ekki með landsliðinu í leikinn til Belgíu.

Erik Hamrén sagði frá því á blaðamannafundi í dag að þrír leikmenn sem hann valdi í hópinn verða aðeins með í fyrri leiknum á móti Englandi.

Leikmennirnir eru markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson, varnarmaðurinn Kári Árnason og sóknarmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson.

Patrik Sigurður Gunnarsson og Alfons Sampsted verða ekki með landsliðinu í Englandsleiknum því þeir þeir verða þá með 21 árs landsliðinu. Báðir koma inn fyrir Belgíuleikinn.

Hamrén telur að þeir Kári Árnason og Kolbeinn Sigþórsson hafi ekki skrokkinn í að spila tvo leiki með þriggja daga millibili og að auki að ferðast frá Íslandi til Belgíu í millitíðinni.

Erik Hamrén tók líka þá ákvörðun sjálfur að Hannes Þór Halldórsson færi ekki með út til Belgíu.

Valsmenn höfðu sett pressuna á KSÍ um að það þyrfti að fresta tveimur leikjum Vals í Pepsi Max deildinni ef Valur ætti að hleypa Hannesi í Belgíuleikinn.

Hamrén ákvað því að skilja Hannes Þór Halldórsson eftir og kalla frekar á Patrik Sigurður Gunnarsson í stað þess að setja þá pressu á mótnefnd KSÍ að reyna að koma þessum tveimur Valsleikjum fyrir þegar þegar er orðið mjög þröngt um alla leiki á Íslandsmótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×