Innlent

Nefndi Sundabraut „bara sem eitt dæmi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að ummæli sín um að ámælisvært væri að Sundabraut hafi ekki verið byggð hafi aðeins verið dæmi til að undirstrika hversu gott tækifæri væri fyrir ríkissjóð um þessar mundir að fjárfesta í innviðum á borð við samgöngumannvirkjum.

Ummælin lét Ásgeir falla á opnum fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar um skýrslu peningastefnu­nefndar Seðlabanka Íslands til Alþingis í dag.

„Mér finnst alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum,“ sagði Ásgeir. Ummælin hafa vakið talsverða athygli og meðal þeirra sem gagnrýnt hafa Ásgeir fyrir ummælin er Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sem furðaði sig á ummælunum.

Ásgeir ræddi þessi ummæli sín á fundinum í dag, og reyndar ýmislegt annað, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar var hann spurður af hverju hann hefði minnst á Sundabraut í þessu samhengi.

„Ég nefndi það í sjálfu sér bara sem eitt dæmi í þessu samhengi. Það liggur alveg fyrir að við höfum ekki mikið verið að fjárfesta í samgönguinnviðum hin síðari ár. Það er meðal vegna þess að það hefur verið þensla í hagkerfinu. Núna er gott tækifæri til að fjárfesta í samgönguinnviðum vegna þess að vextir eru mjög lágir, hér hjá okkur inn í landinu og líka erlendis. Það er líka mjög gott að ef það er lægð í hagkerfinu þá getur ríkið fengið mun hagstæðari tilboð í allar framkvæmdir,“ sagði Ásgeir.

Aðspurður um það hvort fjárfestingar í samgönguinnviðum væri besta leiðin til að koma hagkerfinu aftur af stað úr lægð, útskýrði Ásgeir að slíkt mætti heimfæra almennt á innviðafjárfestingar.

„Ég myndi segja það já, það er ein besta leiðin. Ég nefndi Sundabrautina sem eitt dæmi. Vegir eru einn samgönguinnviðir, það geta líka verið fleiri innviðir eins og að byggja skóla. Þetta eru þá fjárfestingar sem koma sér vel og auka síðan framleiðslugetu hagkerfisins.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×