Innlent

Færri þurfa sjúkra­hús­inn­lögn í þessari bylgju

Sylvía Hall skrifar
Sjö prósent þeirra sem veiktust í vor þurftu sjúkrahúsinnlögn. Nú er hlutfallið 2,5 prósent.
Sjö prósent þeirra sem veiktust í vor þurftu sjúkrahúsinnlögn. Nú er hlutfallið 2,5 prósent. Landspítali/Þorkell

Mun færri leggjast inn á spítala í annarri bylgju kórónuveirunnar hér á landi en í þeirri fyrstu. Þetta kom fram í máli landlæknis sem var spurð út í ástæður þess að færri leggjast inn á spítala.

Alma Möller landlæknir sagði marga þætti spila inn í þá staðreynd að hlutfall sjúkrahúsinnlagna væri um það bil 2,5 prósent nú samanborið við 7 prósent í fyrstu bylgju faraldursins. Almennt væri yngra fólk að greinast með veiruna nú en í vor en fleiri skýringar kæmu einnig til skoðunar.

„Við erum duglegri að skima, þannig við erum kannski með fleiri minna veika sem við greinum núna. Síðan eru getgátur til dæmis um að af því við erum að viðhafa svo margskonar varúð með nándartakmörkunum og þessum persónulegum smitvörnum, að þá fái kannski hver og einn minna af veiru í sig og það kunni að endurspeglast í minni veikindum,“ sagði Alma.

Hún segir eftirlit Covid-göngudeildarinnar vera gott og það sé mikilvægur þáttur í eftirfylgni með þeim sem veikjast.

Sambærileg þróun hefur orðið í annarri bylgju faraldursins í Danmörku. Í fréttatilkynningu í dag kom fram að færri andlát hefðu orðið þar í landi og að fólk sem þyrfti sjúkrahúsinnlögn væri inniliggjandi í mun styttri tíma en almennt var í fyrstu bylgju faraldursins.

„Við erum orðin mun klókari en við vorum í vor,“ var haft eftir Bjarne Ørskov Lindhardt, yfirlækni á smitsjúkdómadeild spítalans í Hvidovre og bætti hann við að fleiri úrræði væru nú í boði fyrir sjúklinga en voru í vor.

Klippa: Færri leggjast inn á sjúkrahús en í fyrstu bylgju

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×