Enski boltinn

Koeman segist aldrei gera það sem hann gerði samt einmitt með Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronald Koeman keypti Gylfa Þór Sigurðsson til Everton haustið 2017.
Ronald Koeman keypti Gylfa Þór Sigurðsson til Everton haustið 2017. Getty/Tony McArdle

Ronald Koeman er sá knattspyrnustjóri sem hefur borgað mest fyrir íslenskan knattspyrnumann en hann var tilbúinn til að kaupa Gylfa Þór Sigurðsson frá Swansea fyrir 40 milljónir punda um miðjan ágúst 2017. Hann var aftur á móti ekki tilbúinn að spila íslenska landsliðsmanninum í hans bestu stöðu í framhaldinu.

Einn af mörgum knattspyrnustjórum Gylfa Þór Sigurðssonar sem hafa verið reknir á síðustu árum hefur ekki getað kvartað yfir störfunum sem hafa boðist síðan.

Ronald Koeman fékk fyrst að taka við hollenska landsliðinu, einu besta landsliði heims, og fórnaði því síðan þegar kallið kom frá Barcelona. Það er vissulega allt í tómu tjóni hjá Börsungum en þetta er eitt af liðunum sem mörgum stjórum dreymir um að stýra ekki síst þeim sem voru leikmenn liðsins áður.

Ronald Koeman er því kominn í draumastarfið hjá félaginu sem hann sjálfur tryggði sigur í Evrópukeppni meistaraliða með því að skora beint úr aukaspyrnu í úrslitaleiknum 1992.

Ronald Koeman þarf að taka ákvörðun um landa sinn Frenkie de Jong hjá Barcelona sem hefur sjaldan fengið að spila sína bestu stöðu. Hollenskur blaðamaður spyrði hann út í landa þeirra og framtíð hans í Barcelona liðinu.

„Frenkie? Ég mun spila honum í sömu stöðu og með hollenska landsliðinu. Ég fór á leik hjá Barca og sá hann spila í allt annarri stöðu og þá hugsaði ég: Ég myndi aldrei gera þetta. Þegar þú fjárfestir svona miklu í leikmanni, eyðir svona miklum peningi og svo spilar þú honum í allt annarri stöðu,“ sagði Ronald Koeman.

Barcelona keypti Frenkie de Jong fyrir 75 milljónir evra í júlí 2019. Félagið vann engan titil á hans fyrsta tímabili.

Svar Ronald Koeman við spurningunni um Frenkie de Jong var frekar broslegt miðað við það sem hann gerði sjálfur við Gylfa Þór Sigurðsson á fyrsta tímabili íslenska landsliðsmannsins á Goodison Park.

Koeman gerði Gylfa ekki aðeins að dýrasta íslenska knattspyrnumanninum heldur einnig að dýrasta leikmanninum í sögu Everton. 40 milljónir punda með mögulega á fimm milljónum punda í viðbót.

Koeman ákvað síðan að spila Gylfa oftast út á vinstri kanti í staðinn fyrir að vera með hann inn á miðjunni eða í holunni þar sem hann er bestur. Það er því ekkert skrýtið að byrjun Gylfa hjá Everton varð enn erfiðari fyrir vikið.

Gylfi var með mikla pressu á sér og þurfti að spila stöðu þar sem hann þurfti meira af hraðanum sem hann hefur ekki og fékk minna af boltanum þar sem hann er bestur.

Ronald Koeman entist reyndar aðeins fram í október því hann var rekinn eftir að liðið datt niður í fallsæti. Koeman hafði eytt um 150 milljónum punda í nýja leikmenn um sumarið en sleppt því að kaupa framherja í staðinn fyrir Romelu Lukaku.

Koeman var hinsvegar tekinn við hollenska landsliðinu í febrúar 2018 og fékk Barcelona starfið síðan á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×