Íslenski boltinn

Emir Dokara með yfirlýsingu til stuðningsmanna Ólafsvíkur | Klárar ekki tímabilið

Ísak Hallmundarson skrifar
Emil Dokara mun ekki halda áfram að spila fyrir Víking Ólafsvík
Emil Dokara mun ekki halda áfram að spila fyrir Víking Ólafsvík vísir/daníel

Emir Dokara, sem hefur verið fyrirliði Víkings Ólafsvíkur um skeið og spilað með liðinu í tæp tíu ár, var á dögunum sendur í ótímabundið leyfi af Guðjóni Þórðarsyni þjálfara liðsins. Emir hefur nú sent frá sér yfirlýsingu á stuðningsmannasíðu liðsins og segist ætla að hætta að spila með liðinu vegna skorts á virðingu frá þjálfaranum.

„Síðan hann (Guðjón) kom hingað hefur hann aldrei rætt hlutina almennilega við mig. Þegar ég spurði hann af hverju hann rak mig úr liðinu sagði hann: „Ég þarf ekki að segja þér ástæðuna,“ sneri sér við og labbaði í burtu. Ég naut ekki virðingar hans,“ segir í yfirlýsingunni.

Hann segist hafa talað við stjórn félagsins sem hafi viljað halda honum innan liðsins en hann ætlar ekki að klára tímabilið með Víkingum og segir ástæðuna að hann njóti ekki virðingar þjálfarans. Þá vill hann enda hlutina á góðum nótum og telur mikilvægara að þjálfarinn haldi áfram en hann sjálfur.

„Í þessum erfiðu aðstæðum er liðið mikilvægara og þarf meira á þjálfara að halda en einum leikmanni, það er skárri kosturinn og fórn sem ég er tilbúinn að færa,“ segir hann.

Að lokum þakkar Emir stjórn Víkings Ó. og stuðningsmönnum innilega fyrir árin með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×