Fótbolti

Conte gæti sagt upp í næstu viku

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Conte er mögulega á förum frá Inter.
Conte er mögulega á förum frá Inter. Vísir/Getty

Heimildir herma að Ítalinn Antonio Conte – þjálfari Inter Milan – gæti rift samningi sínum við félagið í næstu viku. Massimiliano Allegri, landi hans, er talinn líklegur til að taka við.

Daily Mail greinir frá. Er ástæðan talin slæmt tap Inter gegn Sevilla í Evrópudeildinni og mögulega sú staðreynd að Conte missti stjórn á skapi sínu er Éver Banega, leikmaður Sevilla, gerði grín að hári Conte.

Í kjölfar 3-2 tapsins gegn Sevilla viðurkenndi Conte að hann gæti yfirgefið félagið. Þá ku Conte hafa gefið út að hann hafi áhuga á að þjálfa Manchester United en það verður að teljast ólíklegt að það gerist á næstunni.

Talið er að stirt samband Conte og forráðamanna Inter spili stærstan þátt í ákvörðun hans en Inter náði ásættanlegum árangri á leiktíðinni þó svo að félagið hefði viljað vinna Evrópudeildina.

Massimiliano Allegri er langlíklegastur til að taka við starfi Conte en Allegri er jú maðurinn sem tók við af Conte er hann hætti með Juventus árið 2014. Hann hefur ekki þjálfað síðan hann yfirgaf Juventus síðasta sumar. Alls vann hann 11 titla með Juventus en tapaði úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu tvívegis.

Undir stjórn Conte endaði Inter í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, aðeins stigi á eftir Ítalíumeisturum Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×