Íslenski boltinn

Óskar Hrafn: Erfiðar níutíu mínútur

Ísak Hallmundarson skrifar
Óskar Hrafn til vinstri.
Óskar Hrafn til vinstri. vísir/Haraldur

Breiðablik sótti þrjú stig á Vivaldi-völlinn þegar liðið mætti Gróttu í Pepsi Max deild karla í kvöld. Þetta voru þó ekki auðveld þrjú stig, Blikar fengu tvær vítaspyrnur, skoruðu úr einni þeirra, og spiluðu manni fleirri allan seinni hálfleikinn en niðurstaðan 1-0 sigur.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var ekkert sérstaklega sáttur með spilamennsku liðsins í leiknum.

„Eina sem ég er sáttur við er að fá þrjú stig. Þessar níutíu mínútur voru mjög lélegar af okkar hálfu og kannski verðskulduðu ekki stigin þrjú.

Við vorum hægir í spilinu, ákvarðanatökurnar ekki góðar og aginn ekkert nægilegur til að brjóta þá á bak aftur og þetta voru bara erfiðar níutíu mínútur hjá okkur,“ sagði Óskar Hrafn eftir leik.

Fyrir utan stigin þrjú telur Óskar Hrafn innkomu hins unga Stefáns Inga Sigurðarsonar eitt það jákvæðasta sem hann gat tekið úr leiknum.

„Stefán Ingi kemur inná í seinni hálfleik. Ungur og efnilegur strákur og með mjög öfluga innkomu. Fiskar vítið sem tryggir okkur sigurinn og það er auðvitað mjög gleðilegt, það er kannski fyrir utan stigin þrjú það jákvæða sem við tökum úr þessum leik og það að allir eru svona þokkalega heilir,“ sagði Óskar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×