Fótbolti

Leikmenn Juventus samþykkja verulega launaskerðingu í fjóra mánuði

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Síðasti leikur Juventus fór fram fyrir luktum dyrum þann 8.mars síðastliðinn
Síðasti leikur Juventus fór fram fyrir luktum dyrum þann 8.mars síðastliðinn vísir/getty
Ítalska meistaraliðið Juventus hefur náð samkomulagi við leikmenn og þjálfara aðalliðsins þess efnis að laun þeirra skerðist verulega í fjóra mánuði en liðið lék síðast fótbolta þann 8.mars síðastliðinn.

Félagið gaf út tilkynningu vegna þessa í gær þar sem kemur fram að með þessum aðgerðum takist félaginu að spara sér um 90 milljónir evra.

Aðallið Juventus er stórstjörnum prýtt og munu leikmenn á borð við Cristiano Ronaldo og Paulo Dybala fá mun minna útborgað en ella. Sama gildir um Maurizio Sarri, þjálfara liðsins, en allir leikmenn hafa samþykkt skert laun fyrir mars, apríl, maí og júní.

Þó er sérstaklega tekið fram að ef tímabilið byrjar að nýju innan þessa tímaramma verði málin endurskoðuð. Það verður þó að teljast afar ólíklegt að fótbolti verði spilaður á Ítalíu í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×