Innlent

Stjórnvöld hvetja Íslendinga til að huga að heimför og takmarka ferðalög

Andri Eysteinsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm
Ríkisstjórnin kom saman til aukafundar klukkan eitt í dag til að ræða þá stöðu sem komin er upp vegna aðgerða stjórnvalda í öðrum löndum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þessar aðgerðir geti haft áhrif á fjölda Íslendinga sem ýmist búa eða eru á ferðalögum í öðrum löndum.

„Vegna þess að lönd eru að loka landamærum sínum erum við náttúrulega að benda Íslendingum sem eru á ferðalagi að þeir þurfa að huga að ferðatilhögun og tryggja að þeir geti komið heim. Þess vegna er fólki ráðlagt að skoða það hvort það geti flýtt för og þeir sem eru á leið í ferðalag, að þeir skoði þau plön,“sagði Katrín að loknum ríkisstjórnarfundinum í dag.

Íslensk stjórnvöld hafi fylgt öllum tilmælum og ráðleggingum vísindafólks á sviði heilbrigðismála og séu í takti við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggi til.

Þá hafa utanríkis-, heilbrigðis-, og forsætisráðuneytin sent frá sér ráðleggingar til Íslendinga vegna ferðalaga.

„Víða eiga Íslendingar á hættu að verða innlyksa eða lenda í sóttkví við erfiðar aðstæður. Ekki er víst hvaða aðgang og réttindi Íslendingar munu hafa að heilbrigðisþjónustu auk þess sem heilbrigðiskerfi í mörgum ríkjum anna ekki álagi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í tilkynningunni.

Íslendingar erlendis eru þá hvattir til að skrá sig í grunn borgaraþjónustunnar á vef utanríkisráðuneytisins til að hægt sé að miðla upplýsingum þegar þær berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×