Fótbolti

Guðni um stöðuna á Birki og Emil: Gengið út frá því að þeir komi í lands­leikinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson eru staddir á Ítalíu.
Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson eru staddir á Ítalíu. vísir/vilhelm/samsett

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segist vera í reglulegu sambandi við yfirvöld hér og landi og ytra varðandi kórónaveirunnar. Mikil smit hafa greinst á Ítalíu og þar leika tveir íslenskir landsliðsmenn, Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson.

Íslenska landsliðið spilar undanúrslitaleik um sæti á EM 2020 gegn Rúmeníu í lok mars og Vísir sló á þráðinn til Guðna og spurði hann hvernig staðan væri á þeim.

„Við erum að fara yfir þetta með þeim sem að þessu komu, bæði hér á landi og knattspyrnuyfirvöldum erlendis, svo við erum bara að fara yfir stöðuna,“ sagði Guðni í samtali við Vísi í morgun.

„Þetta er að breytast frá degi til dags og viku frá viku. Við erum að reyna greina þetta og rýna í hvað best sé að gera. Það í sjálfu sér mun vonandi skýrast í næstu viku hvað við þurfum að gera í því sambandi.“

Formaðurinn segir að það sé erfitt að segja eitthvað um málið á þessum tímapunkti en hann reikni með þeim í landsleikina.

„Það er ekkert hægt að segja á þessu stigi. Það á eftir að tilkynna hópinn en þeir ættu að gera sterkt tilkall í hópinn. Það er miðað við það að þeir komi í landsleikinn og gengið út frá því að þeir komi í leikinn en það er erfitt að fullyrða á þessum tímapunkti.“

Það eru ekki bara Emil og Birkir sem KSÍ er að horfa til því U19 ára landslið Íslands á að spila milliriðil á Ítalíu í næstu viku.

„Við erum líka að horfa til þess að fara að spila milliriðil á Ítalíu og fleira sem við erum að athuga með. Hlutirnir eru að breytast með hverri vikunni svo við vitum heldur ekki hver nákvæmlega staðan verður í næstu viku.“

„Við munum taka stöðuna betur á þessu strax eftir helgi og erum nú þegar byrjuð að rýna og greina í stöðuna og sjá hvað þurfi að gera,“ sagði Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×