Íslenski boltinn

KR í sóttkví í þriðja sinn í sumar vegna smits

Sindri Sverrisson skrifar
Tímabilið hefur verið ansi erfitt hjá KR innan sem utan vallar. Myndin er úr leik KR en enginn leikmaður er smitaður svo vitað sé.
Tímabilið hefur verið ansi erfitt hjá KR innan sem utan vallar. Myndin er úr leik KR en enginn leikmaður er smitaður svo vitað sé. VÍSIR/VILHELM

KR-konur í fótbolta eru komnar í sóttkví eftir að smit greindist hjá liðinu. Er þetta í þriðja sinn sem að leikmenn úr liðinu þurfa að fara í sóttkví í sumar.

Þetta staðfestir Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, við Fótbolta.net í dag. Hann segir ekki ljóst hvort að allur leikmannahópurinn þurfi að fara í sóttkví. Smitrakning sé í gangi.

Samkvæmt frétt RÚV er um aðila í starfsliði meistaraflokks kvenna að ræða og Vísir hefur fengið staðfest að ekki er um leikmann að ræða. Líklegt er hins vegar að leikmannahópurinn og þjálfarar þurfi að fara í sóttkví.

Tímabilið hefur verið erfitt fyrir KR sem er í fallsæti í Pepsi Max-deildinni, en þó jafnt næstu tveimur liðum að stigum og með leik til góða. Í júní fór liðið í tveggja vikna sóttkví eftir að hafa spilað gegn smituðum leikmanni í leik við Breiðablik, og liðið var einnig í sóttkví fyrri hluta þessa mánaðar.

KR átti að mæta Selfossi í kvöld í Pepsi Max-deildinni en síðasti leikur liðsins var gegn Val á mánudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×