Fótbolti

„PSG getur klár­lega unnið en þeir þurfa þá að eiga sinn allra besta dag“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr settinu í gær.
Úr settinu í gær. vísir/skjáskot

Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að PSG eigi möguleika á að vinna Bayern í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en til þess þurfa þeir að eiga sinn allra besta leik.

Bayern tryggði sér sæti í úrslitaleiknum í gærkvöldi með sigri á Lyon og PSG hafði betur gegn Leipzig í fyrrakvöld. Kjartan Atli Kjartansson, Atli Viðar Björnsson, Jóhannes Karl Guðjónsson og Freyr spáðu í spilin fyrir úrslitaleikinn í gær.

„Við erum búnir að fara yfir pressuna hjá Bayern en það sem við munum sjá hjá PSG er að þeir eru betri að spila sig út úr fyrstu pressunni en nokkurn tímann Lyon eru og munu eflaust verða,“ sagði Jóhannes Karl.

„Þeir eru líka með hraða til þess að komast aftur fyrir vörn Bayern sem mun halda línunni hátt. Þó að Bayern verði snöggir að koma sér aftur niður í varnarstöðu þá eru þeir líka með sendingargetu, gæði og aftur geta þeir farið í hlaup og stungið sér enn aftur fyrir. Þar munu þeir vera hættulegir.“

„Þessu þarf Bayern að geta stýrt varnarlega til þess að stoppað gríðarlega gott PSG-liðið.“

Atli Viðar segir að með færunum sem Lyon hafði fengið í kvöld, þá hefði PSG refsað þýsku meisturunum.

„Það eru miklu meiri gæði í fremstu mönnum PSG en nokkurn tímann hjá Lyon. Ég held að þeir séu miklu líklegri til þess að refsa Bayern. Á fyrsta korterinu í kvöld [í gær] þá hefði PSG skorað með öllum þessum möguleikum sem Lyon fékk.“

„Ef Bayern ætlar að vera svona „sloppy“ eins og þeir voru á fyrsta korterinu og missa þá í gegnum sig, þá held ég að það séu meiri líkur á því að PSG sé að fara stríða þeim.“

Freyr segir að möguleikinn sé til staðar fyrir PSG en það sé hins vegar erfiður þýskur risi sem bíður þeirra.

„Varnarlega finnst mér PSG í góðu jafnvægi, þrátt fyrir að vera með einn til tvo hálfgerða svindlkalla í varnarleiknum. Mér finnst Neymar búinn að bæta það gríðarlega. Þeir mega ekki gefa þeim mikið pláss á vængjunum því þá ná þeir yfirtölu. PSG getur klárlega unnið en þeir þurfa þá að eiga sinn allra besta dag.“

Klippa: Meistaradeildarmörkin - Spáð í úrslitaleikinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×