Erlent

Fyrst kvenna til að gegna em­bætti fjár­mála­ráð­herra Kanada

Atli Ísleifsson skrifar
Chrystia Freeland er nýr fjármálaráðherra Kanada.
Chrystia Freeland er nýr fjármálaráðherra Kanada. Getty

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur skipað Chrystia Freeland sem nýjan fjármálaráðherra landsins. Hún tekur við embættinu af Bill Morneau sem sagði af sér fyrr í vikunni í kjölfar deilna við Trudeau um fjárútlát kanadíska ríkisins á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Hin 52 ára Freeland hefur gegnt stöðu aðstoðarforsætisráðherra að undanförnu og er einn nánasti bandamaður Trudeau. Hún starfaði áður sem blaðamaður, en hefur einnig gegnt embætti utanríkisráðherra landsins í valdatíð Trudeau.

Freeland er fyrsta konan til að gegna embætti fjármálaráðherra Kanada, en hún mun áfram fara með embætti aðstoðarforsætisráðherra landsins.

„Það var kominn tími til að við brutum þetta glerþak,“ sagði Freeland eftir að hún hafði verið skipuð nýr fjármálaráðherra.

Freeland stendur frammi fyrir erfiðu verkefni en líkt og á við önnur ríki heims glímir kanadíska ríkið við miklar efnahagsþrengingar vegna heimsfaraldursins. Er búist við að halli á fjárlögum þessi árs verði 343 milljarðar kanadískra dala, um 35.500 milljarðar íslenskra króna.

Freeland er að mörgum talin líklegust til að taka við formennsku í Frjálslynda flokknum, flokki Trudeau, þegar fram í sækir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×