Fótbolti

Stefnir í sögulegan sigur Færeyinga vegna smits

Sindri Sverrisson skrifar
KÍ hefur ekki frekar en önnur færeysk lið komist í gegnum 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
KÍ hefur ekki frekar en önnur færeysk lið komist í gegnum 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. VÍSIR/GETTY

Útlit er fyrir að færeyska meistaraliðinu KÍ verði úrskurðaður 3-0 sigur í einvígi sínu við Slóvakíumeistara Slovan Bratislava í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Slóvakarnir mættu til Færeyja á mánudaginn og átti leikurinn að fara fram í dag. Í samræmi við sérstakar Covid-reglur UEFA urðu allir leikmenn og starfslið að fara í kórónuveirupróf og greindist sjúkraþjálfari Slovan Bratislava með smit. Samkvæmt þeim reglum sem gilda í Færeyjum er því allur slóvakíski hópurinn kominn í 14 daga sóttkví.

Í reglum UEFA er tekið fram að liði sem smit greinist hjá sé úrskurðað 3-0 tap séu reglur í keppnislandinu á þann veg að leikurinn geti ekki farið fram. Þrettán leikmenn þurfi að vera gjaldgengir, þar af einn markvörður.

UEFA fundar í dag með forráðamönnum KÍ, samkvæmt frétt In.fo, þar sem vænta má þess að endanleg ákvörðun verði tekin. Hugsanlegt er að leiknum verið frestað um 1-2 daga en útilokað virðist vera að þeir leikmenn Slovan Bratislava sem komnir eru til Færeyja fái að spila. Í samtali við In.fo sagðist formaður KÍ ekki reikna með því að leikurinn yrði spilaður.

Ef KÍ verður úrskurðaður sigur verður liðið það fyrsta í sögu Færeyja til að komast í 2. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar. KÍ myndi þá mæta Young Boys í Sviss 26. ágúst, og fá jafnvirði rúmlega 60 milljóna íslenskra króna fyrir að hafa komist í gegnum 1. umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×