Innlent

Snæ­fríður fær þrjár milljónir í bætur vegna ráðningar sem var aftur­kölluð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Snæfríður hefur skrifað bækur, starfað við fjölmiðla og deilt reynslu sinni af búsetu á Tenerife undanfarin ár.
Snæfríður hefur skrifað bækur, starfað við fjölmiðla og deilt reynslu sinni af búsetu á Tenerife undanfarin ár.

Samþykkt var á fundi bæjarráðs Akureyrar í dag að greiða Snæfríði Ingadóttur, sem ráðin var verkefnastjóri hjá Akureyrarstofu í fyrra, þrjár milljónir króna í miskabætur. Skömmu eftir að Snæfríður var ráðin var henni tilkynnt að ráðningin hefði verið afturkölluð.

Greint er frá bótagreiðslunni í fundargerð bæjarráðs sem birt var á vef Akureyrarbæjar í dag en fyrst var greint frá á vef Ríkisútvarpsins.

Snæfríður kærði málið til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Akureyrarbæ hefði ekki verið heimilt að afturkalla ráðningu hennar. Í áliti umboðsmanns kemur fram að bærinn hefði tilkynnt Snæfríði að ekki gæti orðið af ráðningunni vegna þess að háskólapróf konunnar væri annars eðlis en gengið hefði verið út frá þegar umsóknir um starfið voru metnar.

Snæfríður kærði málið til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Akureyrarbæ hefði ekki verið heimilt að afturkalla ráðningu hennar.Vísir/vilhelm

Annar umsækjandi, Jón Þór Kristjánsson frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV, var ráðinn í hennar stað.

Þegar starfið var auglýst í febrúar 2019 var eitt skilyrðið að umsækjendur hefðu háskólapróf sem nýttist í starfi. Snæfríður hafði meðal annars lokið einu ári í grunnnámi við Háskóla Íslands og síðar lokaprófi í tveggja ára blaðamennskunámi við norskan háskóla.

Rök bæjarins fyrir því að afturkalla ráðninguna voru þau að Snæfríður hefði ekki lokið BA-, BS-prófi eða sambærilegu prófi en litið hefði verið svo á að skilyrðið um „háskólapróf“ í auglýsingunni hefði falið það í sér.

Akureyrarbær var þó bundinn af orðalaginu í auglýsingunni, að mati umboðsmanns, og gat ekki breytt hæfniskröfunum fyrir starfið eftir á. Ekki hefði verið minnst á bakkalárpróf í auglýsingunni og hugtakið „háskólapróf“ væri almennt ekki skilið svo að þar væri eingöngu um að ræða bakkalárpróf.


Tengdar fréttir

Skrifa um eigin upplifun

Út er komin ný ferðahandbók, Tenerife krakkabókin. Það sem er sérstakt við hana er að hún er að mestu skrifuð af ellefu ára stúlku, Ragnheiði Ingu Matthíasdóttur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.