Erlent

Bretar og Bandaríkjamenn saka Rússa um stórfelldar netárásir á Georgíu

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar GRU í Moskvu.
Höfuðstöðvar GRU í Moskvu. Getty/ZAVRAZHIN

Bresk stjórnvöld saka leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) um að hafa staðið að baki stórfelldum netárásum á Georgíu í fyrra. Árásirnar eru sagðar hafa orðið til þess að yfir tvö þúsund vefsíður urðu óaðgengilegar þar í landi.

Bandarísk og georgísk stjórnvöld taka undir niðurstöður Breta en rússneska utanríkisráðuneytið neitar ásökununum. Bretar fullyrða að um hafi verið að ræða „tilraun til þess að grafa undan fullveldi Georgíu.“

Breska netöryggisstofnunin (NCSC) sem hefur rannsakað árásina segist geta sagt með „nær fullri vissu“ að leyniþjónusta rússneska hersins hafi staðið að baki umræddum árásum sem hafi meðal annars haft áhrif á vefsvæði georgíska ríkissjónvarpsins og fjölmargar vefsíður á vegum stjórnvalda.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sömuleiðis fordæmt árásirnar: „Bandaríkin kalla eftir því að Rússland stöðvi framferði sitt í Georgíu sem og annars staðar.“

„Umfang þessarar árásar er eitthvað sem við höfum ekki séð áður,“ sagði Alan Woodward, netöryggissérfræðingur við Háskólann í Surrey, þegar árásirnar áttu sér stað á síðasta ári.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem georgísk yfirvöld saka Rússa um að standa fyrir netárásum þar í landi en það gerðist einnig árið 2008 á meðan átök voru á milli ríkjanna. Rússar þvertóku einnig fyrir þær ásakanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×