Erlent

Týnd börn, dular­full dauðs­­föll og dóms­dags­spá

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lori Daybell.
Lori Daybell. Lögregla á KAUAI

Lögregla á Hawaii í Bandaríkjunum handtók á fimmtudag konu á fimmtugsaldri, sem grunuð er um að hafa yfirgefið og vanrækt börn sín tvö. Ekkert hefur spurst til barnanna síðan í september. Erlendir miðlar hafa lýst málinu sem afar einkennilegu en það teygir anga sína víða um Bandaríkin - og tengist a.m.k. tveimur dularfullum dauðsföllum.

Konan heitir Lori Daybell og er 46 ára. Hún hefur verið á Hawaii síðan í nóvember, eftir að lögregla í Idaho-ríki yfirheyrði hana vegna hvarfs barna hennar í nóvember síðastliðnum. Daybell er talin hafa verið meðlimur í sértrúarsöfnuði og er sögð hafa verið heltekin af heimsendi, sem hún taldi yfirvofandi.

Daybell var leidd fyrir dómara á Hawaii í gær en hún er ákærð fyrir að yfirgefa börn sín tvö, Joshua Vallow sjö ára og Tylee Ryan, sautján ára. Hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald gegn tryggingu og verður leidd fyrir dómara á ný 2. mars.

Dauðsfall bæði eiginmanns og bróður

Máli Daybell og barna hennar hefur verið lýst sem afar einkennilegu, og jafnvel dularfullu, í fjölmiðlum vestanhafs. Daybell flutti til Idaho í ágúst síðastliðnum eftir að bróðir hennar skaut þáverandi eiginmann hennar til bana. Bróðirinn, sem lést af óþekktum orsökum í desember, kvaðst hafa skotið eiginmanninn í sjálfsvörn.

Þá báðu föðuramma og -afi annars barnsins lögregluþjóna að vitja Daybell og barnanna í nóvember. Lögregla kveðst svo nokkru síðar hafa komist að því að ekkert hafi spurst til barnanna síðan í september.

Börn Daybell, þau Joshua Vallow sjö ára og Tylee Ryan, sautján ára.

Daybell er sögð hafa veitt lögreglu misvísandi svör við skýrslutöku. Hún hafi logið til um það hvar börnin væru niðurkomin, sem og tilvist þeirra. Daginn eftir skýrslutökuna var hún á bak og burt en lögregla fann um svipað leyti föt og leikföng í eigu barnanna í yfirgefnu geymsluhúsnæði.

Grunsemdir vöknuðu hjá lögreglu

Þá er haft upp úr skjölum tengdum skilnaði Daybell og áðurnefnds eiginmanns hennar sem skotinn var til bana að hún væri með dauðann og „dulrænar sýnir“ á heilanum. Hún væri jafnframt sannfærð um að hún væri útvalin til að framfylgja dómsdagsspá í júlí árið 2020.

Daybell giftist Chad Daybell, höfundi heimsendatengdra skáldsagna, í október síðastliðnum. Þau eru bæði sögð hafa verið meðlimir í sértrúarsöfnuði sem mælti með því að meðlimir væru ætíð undirbúnir fyrir yfirvofandi ragnarök.

Tammy Daybell, fyrrverandi eiginkona Chads, lést tveimur vikum áður en hann giftist Lori [Daybell]. Ekki var talið að andlát hennar hefði borið að með saknæmum hætti. Lögreglu þótti þó grunsamlegt hversu hratt brúðkaup Chads og Lori bar að eftir andlát Tammy og lík hennar var því grafið upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×