Innlent

Skiptinámið til Mílanó úr sögunni vegna kórónuveirunnar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fjölnir Daði Georgsson lögfræðinemi í Háskóla Íslands ætlaði að fara til Mílanó í skiptinám en ákvað að hætta við vegna kórónuveirunnar.
Fjölnir Daði Georgsson lögfræðinemi í Háskóla Íslands ætlaði að fara til Mílanó í skiptinám en ákvað að hætta við vegna kórónuveirunnar. Vísir/Egill

Fjölnir Daði Georgsson lögfræðinemi við Háskóla Íslands ætlaði í skiptinám til Mílanó á Ítalíu. Þau plön eru úr sögunni vegna kórónuveirunnar en Fjölnir hugðist fljúga utan í dag.

„Plönin eru fljót að breytast á sunnudaginn var ég á leið til Mílanó í skiptinám í lögfræði. Um morguninn fékk ég tölvupóst frá skólanum úti að búið væri að fresta öllum viðburðum á vegum skólans vegna veirunnar til 29. febrúar og þá yrði staðann aftur metin. Eftir að hafa séð fréttir og heyrt af viðvörunum ákvað ég að hætta við að fara út,“ segir Fjölnir. 

Fjölnir  hafði greitt fyrir flugfarið út og fyrir leigu í einn mánuð í Mílanó.

„Ég fæ flugið ekki endurgreitt en leigusalinn er að skoða hvað hann getur gert vegna þessara aðstæðna,“ segir hann. 

Fjölnir sem er með ferðatryggingu hjá tryggingafélagi ætlar að kanna hvort hann fái flugfarið endurgreitt þaðan.

„Það er ákvæði í tryggingunni sem mun reyna á en það er þegar opinberir aðilar beina fólki frá því að ferðast á ákveðna staði vegna farsótta,“ segir hann.

Hann segir að Háskóli Íslands hafi sýnt málinu skilning og hann fái að fara í fög þrátt fyrir að liðið sé á önnina.

„Ég er fegin að vera ekki úti í þessu ástandi og ætla í staðinn að ljúka náminu hér heima í vor,“ segir Fjölnir.

Rætt var við Fjölni í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×