Innlent

Við­búnaður í Leifs­stöð þegar vél Icelandair kom frá Ítalíu

Eiður Þór Árnason skrifar

Sérstakur viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli þegar flugvél Icelandair frá Veróna á Ítalíu lenti á sjötta tímanum í dag. Kórónuveiran margumtalaða hefur náð mikilli útbreiðslu í norðurhluta Ítalíu og verður þeim Íslendingum sem dvalið hafa á skilgreindum áhættusvæðum þar í landi gert að fara í sóttkví.

Þar er um er að ræða ítölsku héruðin Lombardía, Venetó, Emilía Rómanja og Píemonte en borgin Veróna er staðsett í Venetó-héraði. Þeir farþegar vélarinnar sem hafa ekki dvalið á umræddum svæðum eru einungis hvattir til þess að gæta að almennu hreinlæti.

Greint var frá því í kvöld að tveir farþegar vélarinnar hafi verið sendir í sóttkví eftir að þeir sýndu flensueinkenni.

Þegar vélin lenti á Keflavíkurflugvelli í dag var henni keyrt beint á austurenda flugplansins og farþegunum gert að fara þar úr vélinni í stað þess að fara í gegnum hefðbundinn landgang.

Mikil hundslappadrífa tók á móti hópnum og voru farþegar leiddir upp í nokkrar rútur sem fluttu þá beint upp að flugstöðinni. Þar fór hópurinn inn um sérstakan inngang sem leiddi þau beint í töskumóttökuna. Hjúkrunarfræðingar tóku þar á móti farþegunum, búnir handspritti, bæklingum og ráðleggingum.

Rætt var við nokkra farþega vélarinnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld og má sjá viðtölin í klippunni hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Hóteli á Rauðarárstíg breytt í sóttkví

Ákveðið hefur verið að nýta hótel á Rauðarárstíg sem sóttkví fyrir þau sem mögulega smituð eru af kórónuveirunni. Gestum hótelsins var tilkynnt þetta í morgun og voru þeir fluttir á annað hótel í nágrenninu. Forstjóri Sjúkratrygginga segir ekkert smit hafa komið upp, aðeins sé um varúðarúrræði að ræða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.