Innlent

Hóteli á Rauðarárstíg breytt í sóttkví

Stefán Ó. Jónsson og Andri Eysteinsson skrifa
Hótelið sem um ræðir er Fosshótel Lind við Rauðarárstíg.
Hótelið sem um ræðir er Fosshótel Lind við Rauðarárstíg. Vísir/Frikki

Ákveðið hefur verið að nýta hótel á Rauðarárstíg sem sóttkví fyrir þau sem mögulega smituð eru af kórónuveirunni og þurfa á sóttkví að halda. Gestum hótelsins var tilkynnt þetta í morgun og voru þeir fluttir á annað hótel í nágrenninu. Forstjóri Sjúkratrygginga segir ekkert smit hafa komið upp, aðeins sé um varúðarúrræði að ræða.

Um er að ræða Fosshótelið Lind við Rauðarárstíg 18, þar sem sjúkrahótel Rauða krossins var til húsa um áratugaskeið. Þar eru um 70 herbergi. Gestum hótelsins var greint frá því í morgun að heilbrigðisyfirvöld hafi óskað þess að húsnæðið verði nýtt sem sóttkví fyrir fólk sem grunað er um að hafa smitast af kórónuveirunni.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela sem reka Lind á Rauðarárstíg, segir að gestir hótelsins hafi tekið skilaboðunum af miklu jafnaðargeði og að þeim hafi þegar verið komið fyrir á öðrum hótelum keðjunnar. Davíð Torfi segir að komi upp smit á meðal þeirra sem dvelja munu á hótelinu verði þeir sendir annað.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að ákvörðunin um að nýta húsnæðið sé algjört varúðarúrræði.

„Við viljum hafa ákveðna aðstöðu til þess að bregðast við mögulegri útbreiðslu kórónaveirusmits og erum þarna með aðstöðu þar sem hægt er hafa einstaklinga í sóttkví vegna gruns um smit.“

Aðstaðan sé hugsuð fyrir fólk sem ekki getur verið í einangrun heima hjá sér.

„Þetta er nú fyrst og fremst hugsað fyrir ferðamenn, erlenda ríkisborgara og aðra sem ekki geta verið í einangrun á eigin heimili,“ sagði María.

„Á þessu stigi er eingöngu um varúðarráðstöfun að ræða og við vitum ekki um neinn einstakling á þessu stigi sem þarf að nýta hana,“ segir María.

Gengið er út frá því að húsnæðið standi heilbrigðisyfirvöldum til boða næstu tvo mánuðina.

„Við gerum ráð fyrir því en þetta er staða sem er bara endurmetin frá degi til dags,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að hótelið yrði fyrir smitaða einstaklinga en í raun verður það einungis sóttkví fyrir þá sem á sóttkví þurfa að halda.


Tengdar fréttir

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar á Íslandi

Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir nýrri kórónaveiru (COVID-19).
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.