Fótbolti

Verður Cloé Lacasse í íslenska landsliðshópnum í fyrsta sinn?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cloé Lacasse hefur verið á skotskónum í Portúgal.
Cloé Lacasse hefur verið á skotskónum í Portúgal. Mynd/Instagram/cloe_lacasse

Búist er við því að markadrottningin Cloé Lacasse verði í dag valin í fyrsta sinn í íslenska A-landsliðið í knattspyrnu.

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, tilkynnir í dag landsliðshóp sinn fyrir Pinatar bikarinn sem er æfingamót sem íslensku stelpurnar keppa á í mars.

Íslensku stelpurnar komust ekki inn á Algarve-bikarinn eins og síðustu þrettán ár en spilar aftur á móti á fjögurra þjóða æfingamóti með Norður-Írlandi, Skotlandi og Úkraínu. Leikirnir fara fram frá 4. til 10. mars.

Knattspyrnukonan Cloé Lacasse, sem kemur upphaflega frá Kanada, fékk íslenskt vegabréf á síðasta ári en var ekki komin með tilskilin leyfi þegar íslenska kvennalandsliðið kom síðast saman.

Nú ætti Knattspyrnusamband Íslands að vera búið að koma öllum hennar málum á hreint hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu og það er því búist við því að Cloé Lacasse verði í hópnum hjá Jóni Þór að þessu sinni.







Cloé Lacasse hefur farið hreinlega á kostum með Benfica liðinu í portúgölsku deildinni á þessu tímabili og er þegar komin með 20 mörk í aðeins 13 deildarleikjum.

Benfica liðið er á toppi portúgölsku deildarinnar með þriggja stiga forskot og markatöluna 99-1. Cloé Lacasse er markahæsti leikmaðurinn og hefur þriggja marka forskot á liðsfélaga sinn Darlene.

Cloé Lacasse spilaði með ÍBV frá 2015 til 2019 og skoraði 54 mörk í 79 leikjum í Pepsi Max deildinni þar af 11 mörk í 12 leikjum síðasta sumar.

Cloé Lacasse er fædd árið 1993 og heldur upp á 27 ára afmælið sitt í sumar. Hún kom til ÍBV eftir að hafa spilað með University of Iowa í bandaríska háskólafótboltanum þar sem hún var markahæsti leikmaður liðsins á öllum tímabilum sínum með Iowa skólaliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×