Erlent

Salvini ósáttur en býst ekki við sakfellingu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Salvini boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hann tjáði sig um málið.
Salvini boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hann tjáði sig um málið. Vísir/AP

Matteo Salvini, leiðtogi ítalska öfgaþjóðernis-hyggjuflokksins Bandalagsins, sagðist í dag alsaklaus af ásökunum um að hann hefði brotið lög með því að meina flóttamönnum að yfirgefa björgunarskip í júlí á síðasta ári. Hann hefur verið sviptur þinghelgi.

Öldungadeild ítalska þingsins samþykkti í gær að svipta Salvini þinghelgi. Með því lagði þingið í raun blessun sína yfir að réttað verði yfir þessum fyrrverandi innanríkisráðherra.

Hið meinta brot átti sér stað þegar Salvini var innanríkisráðherra í stjórn Bandalagsins og Fimm stjörnu hreyfingarinnar, sem sprakk í byrjun septembermánaðar. Salvini rak afar harða stefnu í innflytjendamálum og vildi meina öllum skipum sem höfðu bjargað flóttamönnum af Miðjarðarhafi að koma til Ítalíu.

Hann tók skref í þá átt í júlí 2019 þegar hann skipaði 131 flóttamanni að halda kyrru fyrir um borð í skipi utan af Sikiley þar til annað ríki en Ítalía samþykkti að taka á móti þeim. Nú stendur til að rétta yfir honum á þeim grundvelli að þetta hafi jafngilt mannráni.

Ítalinn var ósáttur á blaðamannafundi í dag. „Ég minni sjálfan mig nú á 52. grein ítölsku stjórnarskrárinnar, sem ég sór embættiseið, og snýst um að Ítölum, sérstaklega ráðherrum, sé skylda að huga að vörnum þjóðarinnar. Ég trúi því að ég hafi unnið eftir þessari grein þegar ég stóð vörð um öryggi, landamæri og virðingu landsins. Ég tel því að þetta muni ekki leiða til sakfellingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×