Innlent

Óvissustigi vegna veðurs aflýst

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var bæði kalt og blautt víða um land í síðustu viku, ekki síst í Reykjavík.
Það var bæði kalt og blautt víða um land í síðustu viku, ekki síst í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Ríkislögreglustjóri í samráði við alla lögreglustjóra landsins aflýsir hér með óvissustigi almannavarna vegna óveðursins sem gekk yfir landið föstudaginn 14. febrúar í síðustu viku.

Líkt og greint hefur verið frá hafði óveðrið víðtæk áhrif á landinu þar sem samgöngur og almennur rekstur fór úr skorðum. Þannig komu 800 björgunarsveitarmenn komu að rúmlega 700 verkefnum tengdum óveðrinu sem gekk yfir landið á föstudaginn. Klæðningar fuku víða af byggingum, eitthvað var um að gluggar og hurðir brotnuðu og einnig þurfti að huga að bátum í höfnum.

Tilkynnt var um eitt slys tengt veðrinu, þar sem karlmaður slasaðist illa þegar þakplata fauk á hann í Hvalfirði. Óveðrið gerði það einnig að verkum að 5.600 heimili og vinnustaðir urðu rafmagnslausir. Á laugardaginn tókst Landsneti að koma Hellulínu 1 aftur í rekstur sem gerði það að verkum að ekki var lengur þörf á að skammta rafmagni á Suðurlandi.

Viðgerðir á kerfinu munu standa yfir næstu daga og vikur og má því búast við rafmagnstruflunum á því svæði því kerfið er laskað eftir óveðrið og vegna þess að taka þarf rafmagn af í styttri eða lengri tíma á meðan viðgerð stendur.

Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra minnir þó á að þrátt fyrir að óvissustigi vegna veðurs hafi verið aflýst séu áfram vetraraðstæður á landinu, gular viðvaranir vegna veðurs og óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum séu enn í gildi. Eru þeir sem hyggja á ferðalög á milli landshluta hvattir til að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum.


Tengdar fréttir

Þakplata fauk á mann í Hvalfirði

Björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn vinna nú að því að komast á vettvang en arfavitlaust veður er á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×