Uppfært: 11:00
Karlmaðurinn hefur verið fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann í Fossvogi. Töluverðan tíma tók að flytja hann þangað vegna veðurs á Kjalarnesi og Hvalfirði. Hann mun vera við meðvitund en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir. Samkvæmt varðstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk vel að komast í Hvalfjörðinn.
Maður er slasaður eftir að hafa orðið fyrir fjúkandi þakplötu í Hvalfirði. Björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn vinna nú að því að komast á vettvang en arfavitlaust veður er á svæðinu.
Varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins gat ekki staðfest hve alvarleg meiðsli mannsins eru.
Víða er nú rok eða „ofsaveður og fárviðri“ á nokkrum stöðum og hefur vindur mælst mjög sterkur í Hvalfirði í nótt og í morgun. Talið er að veðrið muni ganga niður upp úr hádegi.
Fréttastofan greinir frá öllum nýjustu vendingum í rauntíma í Óveðursvaktinni.