Innlent

Fundi Eflingar og borgarinnar lokið en aftur fundað á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ávarpar hér Eflingarfólk í Ráðhúsinu á dögunum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ávarpar hér Eflingarfólk í Ráðhúsinu á dögunum. vísir/emb

Fundi samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar lauk í húsakynnum Ríkisáttasemjara núna um klukkan 11:30, án samkomulags. Fundurinn hófst klukkan 10, en þetta var fyrsti fundur samninganefndanna í 11 daga. 

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, segir í samtali við fréttastofu að fundi loknum að ætlunin sé að hittast aftur á morgun. Nefndirnar séu í „mikilvægum samtölum“ sem stendur og verður staðan á því „hvar þær séu staddar“ tekin aftur á fundi morgundagsins.

Hún vildi ekki fara út í það hvort nýtt tilboð hefði verið lagt fram á fundi nefndanna í dag. „Við erum bara að fara yfir einstök mál og sjá fleti á því hvernig má klára kjarasamninginn,“ segir Harpa. „Á meðan við tölum saman þá færumst við alltaf nær.“

Var þetta góður fundur? 

„Það er alltaf góður fundur þegar við erum að hittast og reyna að nálgast það markmið að klára kjarasamning,“ segir Harpa.

Útfærðar hugmyndir kynntar

Efling sendi að sama skapi frá sér tilkynningu að fundi loknum þar sem fram kemur að þar hafi samninganefnd félagsins lagt fram „útfærðar hugmyndir að lausn deilunnar.“ Innihald þeirra verði þó ekki kynnt að svo stöddu. 

„Samninganefnd Eflingar hefur fundað stíft síðustu daga ásamt starfsfólki og trúnaðarmönnum til að útfæra og ná sátt um tillögur. Er þetta í þriðja sinn sem samninganefnd Eflingar leggur fram tillögur til lausnar á deilunni,“ segir jafnframt í tilkynningu Eflingar.

Á meðan ekki er búið að undirrita umræddan kjarasamning heldur ótímabundið verkfall Eflingarfólks í borginni áfram. Verkfallið nær til allra leikskólabarna hjá borginni og hefur einnig mikil áhrif á velferðarþjónustu borgarinnar, en notendur hennar eru 1.650 manns.

Eftir því sem verkfallið lengist mun það hafa áhrif á sorphirðu í Reykjavík og aðra umhirðu borgarlandsins.

Um 1.850 manns í Eflingu starfa hjá borginni á um 129 starfsstöðvum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.