Innlent

Ökufantarnir eru sex­tán og sau­tján ára, grunaðir um hnupl og reyndu að flýja vett­vang

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drengirnir voru handteknir í grennd við húsnæði Matvælastofnunar á Selfossi.
Drengirnir voru handteknir í grennd við húsnæði Matvælastofnunar á Selfossi. Vísir/Egill

Þrír drengir, sem lögregla á Suðurlandi handtók á Selfossi í gær eftir ofsaakstur á stolinni bifreið, eru sextán og sautján ára. Auk umferðarlagabrota eru þeir grunaðir um að hafa stolið áfengi á veitingastað á Hvolsvelli, auk þess sem þeir reyndu að flýja lögreglu er þeir voru stöðvaðir á Selfossi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi. Greint var frá því í gær að þrír hefðu verið handteknir á Selfossi að lokinni eftirför lögreglu eftir Suðurlandsvegi. Þeir væru grunaðir um að hafa verið á stolinni bifreið, ekki sinnt stöðvunarmerkjum og keyrt á 140 kílómetra hraða á klukkustund þegar mest lét.

Lögregla greinir nú frá því að umræddir einstaklingar hafi verið þrír drengir, fæddir 2003 og 2004. Þeir eru grunaðir um að hafa stolið bifreið á Rangárvöllum í gær og ekið á Hvolsvöll þar sem þeir eru grunaðir um að hafa hnuplað áfengi af veitingastað.

Hugðust forða sér á hlaupum

Þá hafi þeir ekki virt stöðvunarmerki lögreglu þegar til stóð að hafa afskipti af þeim og ekið sem leið lá vestur eftir þjóðvegi 1 í átt að Selfossi. Þar var akstur þeirra stöðvaður með naglamottu sem lögð var yfir veginn.

„Miklar ráðstafanir voru gerðar á meðan á þessu stóð og var klippubíll frá Brunavörnum Árnessýslu og sjúkrabifreiðar frá HSU í viðbragðsstöðu við akstursleið drengjanna ef slys yrðu á fólki en töluverð umferð var um Suðurlandsveg á þessum tíma,“ segir í tilkynningu. Engan sakaði, hvorki drengina né vegfarendur sem urðu á vegi þeirra.

Dekk á bíl drengjanna urðu loks loftlaus sökum naglamottunnar skömmu eftir að honum var beygt inn á götuna Langholt á Selfossi, og þaðan inn á lóð Matvælastofnunar. Þeir voru handteknir er þeir hugðust forða sér á hlaupum af vettvangi.

Drengirnir voru vistaðir á viðeigandi stofnun að lokinni töku blóðsýnis úr ökumanni og öflun upplýsinga. 

Þá segir í tilkynningu lögreglu að síðustu tvo daga hafi 34 ökumenn til viðbótar verið kærðir fyrir að aka of hratt á Suðurlandi. Þrír þeirra mældust á 146, 148 og 150 kílómetra hraða en aðrir á bilinu 110 til 135 kílómetra hraða. Flestir ökumannanna, eða 24, voru á ferðinni í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.