Erlent

Hótar því að ráðast enn eina ferðina inn í Sýrland

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AP/Forsetaembætti Tyrklands

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir viðræður við Rússa um átökin í Idlib-héraði í Sýrlandi hafa verið vonbrigði. Þær hafi jafnvel verið móðgandi og einungis tímaspursmál sé hvenær Tyrkir grípa til aðgerða í héraðinu.

Rússar vara Tyrki við slíkum aðgerðum og segja að mögulegar árásir Tyrkja á stjórnarher Sýrlands muni hafa alvarlegar afleiðingar.

Erdogan hefur krafist þess að Rússar stöðvi sókn stjórnarhersins inn í Idlib en hundruð þúsundir hafa flúið undan sókninni og stefnt að Tyrklandi.

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu við því í gær að ástandið í héraðinu væri verulega slæmt og að nærri því 300 almennir borgarar hefðu fallið í árásum stjórnarhersins og Rússa.

Þar sem hann ræddi við þingmenn AK-flokksins í dag sagði Erdogan að ríkisstjórn hans væri staðráðin í að gera öruggt svæði úr Idlib, „sama hvað það kostaði“. Það yrði gert þó að viðræður við Rússa hefðu engum árangri skilað.

Erdogan hefur lengi stutt við bakið á ýmsum uppreisnar- og vígahópum í Sýrlandi.

Forsetinn gaf í skyn að það væri einungis dagaspursmál hvenær hann myndi grípa til aðgerða. Undirbúningur væri hafinn og her Tyrklands gæti sótt inn í héraðið hvenær sem er.

Tyrkir og Rússar skrifuðu árið 2018 undir samkomulag um að gera nokkurs konar friðarsvæði í Idlib. Báðar fylkingar settu upp eftirlitsstöðvar í héraðinu en nú saka bæði Tyrkir og Rússar hvora aðra um að brjóta gegn samkomulaginu. Minnst þrettán tyrkneskir hermenn hafa fallið í átökum undanfarnar tvær vikur.

Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem Tyrkir gerðu innrás í Sýrland. Hingað til hafa þrjár innrásir þeirra þó allar beinst gegn sýrlenskum Kúrdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×