Innlent

Rúta fauk út af vegi í "svartabyl“ við Reynisfjall

Kjartan Kjartansson skrifar
Rútan var tjóðruð niður við fleti með þyngd til þess að hún fyki ekki á hliðina í veðurofsanum.
Rútan var tjóðruð niður við fleti með þyngd til þess að hún fyki ekki á hliðina í veðurofsanum. Sigurður Gýmir Bjartmarsson

Engan sakaði þegar lítil rúta fauk út af þjóðveginum við Reynisfjall í vonskuveðri og hálku um þrjú leytið í dag. Appelsínugul viðvörun er nú í gildi fyrir Suðausturland og segir varaslökkviliðsstjóri í Vík í Mýrdal að þar hafi gert svartabyl um miðjan dag.

Farþegarnir voru fluttir til Víkur en rútan, sem var á vegum Tröllaferða, var bundin niður til þess að hún fyki ekki um koll í storminum. Sigurður Gýmir Bjartmarsson, varaslökkviliðsstjóri í Vík og björgunarsveitarmaður, segir að blint og hvasst hafi verið á svæðinu.

Vegum hefur verið lokað vegna óveðursins á Suðausturlandi, þar á meðal undir Eyjafjöllum og að Vík. Einnig hefur þjóðveginum verið lokað frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni. Sigurður segir að ekki þurfi að vera að rútan sem fauk út af hafi farið fram hjá lokunum heldur sér líklegra að hún hafi verið með ferðafólk í skoðunarferð um hjáleiðir þegar veðrið skall á.

Erill hefur verið hjá björgunarsveitinni í Vík vegna óveðursins og segir Sigurður að önnur rúta hafi verið dregin upp á vegin við Skarphól í Mýrdal. Þá hafi þurft að hjálpa einum og einum fólksbíl í vanda.

Rútan var skilin eftir við veginn og verður sótt þegar lægir.Sigurður Gýmir Bjartmarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×