Erlent

Trump að öllum líkindum sýknaður á mið­viku­dag

Heimir Már Pétursson skrifar

Allar líkur eru á að Donald Trump Bandaríkjaforseti verði sýknaður af ákærum um embættisbrot í öldungadeild bandaríska þingsins, eftir að republikanar felldu tillögu demókrata um að vitni yrðu kölluð til yfirheyrslu vegna málsins í gærkvöldi.

Forsetanum var stefnt fyrir að þrýsta á stjórnvöld í Úkraínu að rannsaka pólitískan andstæðing hans og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Öldungardeildarþingmenn eru í raun kviðdómur í málinu en 51 repúblikani felldi tillögu um vitnisburð á móti 49 þingmönnum demókrata og tveimur repúblikönum, þeim Mitt Romney og Susan Collins.

Chuck Schumer leiðtogi demókrata í öldungadeildinni segir það meiriháttar harmleik að hvorki verði hægt að leiða vitni fyrir deildina né leggja þar fram skjöl.

„Einn mesti harmleikur sem nokkurn tímann hefur hent Öldungadeildina. Þjóðin mun því miður muna þennan dag þegar Öldungadeildin axlaði ekki ábyrgð sína, þegar Öldungadeildin sneri baki við sannleikanum og samþykkti sýndarréttarhöld. Ef forsetinn verður sýknaður án vitna og án skjala hefur sýknunin ekkert gildi,“ sagði Schumer eftir atkvæðagreiðsluna í gærkvöldi.

Uppfært 3. febrúar 2020: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði ranglega að atkvæðagreiðslan um vitnaleiðslur hefði farið alfarið eftir flokkslínum, 53-47. Tveir repúblikanar greiddu hins vegar atkvæði með vitnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×