Erlent

Minnst tuttugu í valnum og hermaðurinn gengur enn laus

Samúel Karl Ólason skrifar
Verslunarmiðstöðin hefur verið lokað af en talsmaður Varnarmálaráðuneytis Taílands segir mögulegt að tugir almennra borgara séu enn þar inni.
Verslunarmiðstöðin hefur verið lokað af en talsmaður Varnarmálaráðuneytis Taílands segir mögulegt að tugir almennra borgara séu enn þar inni. AP/Sakchai Lalitkanjanakul

Hermaður sem gekk berserksgang í verslunarmiðstöð í Taílandi í dag skaut minnst tuttugu til bana og særði 31. Tíu þeirra eru í alvarlegu ástandi. Hermaðurinn gengur enn laus og hefur lokað sig af í verslunarmiðstöðinni. Því hefur verið haldið fram að hann hafi tekið gísla en það hefur ekki verið staðfest.

Lögreglan segir hermanninn, sem heitir Jakraphant Thomma, vera reiðan vegna deilna um landareign en hann er sagður hafa skotið yfirmann sinn og 63 ára konu, áður en hann stal vopnum á herstöð og keyrði til verslunarmiðstöðvarinnar. Hann keyrði herbíl og er sagður hafa skotið á fólk á leiðinni.

Verslunarmiðstöðin hefur verið lokað af en talsmaður Varnarmálaráðuneytis Taílands segir mögulegt að tugir almennra borgara séu enn þar inni, samkvæmt frétt BBC.

Á meðan á árásinni hefur staðið hefur hinn grunaði birt nokkrar færslur á samfélagsmiðlum sínum, þar á meðal spurði hann á Facebook hvort hann ætti að gefa sig fram við lögreglu og leggja niður vopn. Áður hafði hann birt mynd af skammbyssu og þremur skothylkjum og skrifaði með myndinni: „Kominn tími til að verða spennt“ (e. It is time to get excited).

Búið er að taka Facebook síðu hans niður.

CNN ræddi við Jon Fielding, sem var í verslunarmiðstöðinni þegar skothríðin hófst. Hann sagði mikið óðagot hafa myndast og allir gestir hafi leitað sér skjóls. Sjálfur var hann í um tuttugu manna hópi sem faldi sig í eldhúsi veitingastaðar í um fimm klukkustundir.

Lögreglan hefur fengið móður hermannsins til að reyna að fá hann til að gefast upp.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.