Innlent

Virtu ekki heimkomusmitgát og reyndust smituð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra segir stikkprufur hafa sannað gildi sitt í málinu.
Samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra segir stikkprufur hafa sannað gildi sitt í málinu. Vísir/Vilhelm

Embætti ríkislögreglustjóra þurfti í gær að hafa uppi á einstaklingum úr 13 manna hópi sem kom hingað til lands í fyrradag. Einstaklingarnir sem um ræðir viðhöfðu ekki heimkomusmitgát og reyndust sjö þeirra smitaðir af kórónuveirunni.

Þetta staðfesti Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra í samtali við Vísi, en RÚV greindi fyrst frá.

Allur hópurinn kom hingað til lands á fimmtudag í gegn um öruggt land, en höfðu dvalist í óöruggu landi innan við 14 dögum fyrir komuna hingað til lands. Þetta kom í ljós við stikkprufu sem landamæraverðir gerðu þegar fólkið kom hingað til lands. Því fór fólkið í sýnatöku og átti í kjölfarið að viðhafa heimkomusmitgát áður en seinni sýnataka færi fram.

Jóhann segir að við handahófskennt eftirlit hafi komið í ljós að ekki hafi öll úr hópnum haldið sig þar sem heimkomusmitgátin átti að fara fram. Þó hafi náðst fljótt í öll sem áttu hlut að máli. Hann segir ekki liggja fyrir hvort ásetningur eða misskilningur olli því að heimkomusmitgát var ekki viðhöfð.

Jóhann segir málið þá sýna fram á virkni þess að framkvæma stikkprufur á ferðamönnum sem koma hingað til lands, einkum og sér í lagi í ljósi þeirra reglna sem taka gildi næstkomandi miðvikudag. Þá verður öllum sem koma til landsins að fara í sýnatöku, fjögurra til fimm daga sóttkví og svo aftur í sýnatöku. Ljóst er að ekki verður hægt að fylgjast með því að öll fylgi reglunum og því geti stikkprufur gert mikið gagn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.