Innlent

Landrisið við Grindavík komið í fjóra sentímetra á tíu dögum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rauði flekkurinn sýnir hvar landrisið er mest.
Rauði flekkurinn sýnir hvar landrisið er mest. HÍ, ÍSOR/VINCENT DROUIN.

Land hefur haldið áfram að rísa við Grindavík í dag og mælist landrisið nú fjórir sentímetrar frá því umbrotahrinan í Eldvörpum og Svartsengi hófst fyrir tíu dögum, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands nú síðdegis. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Sem fyrr er miðja landrissins við fjallið Þorbjörn en vísindamenn telja að kvika safnist þar undir á fjögurra kílómetra dýpi. Ný mynd, unnin er úr gögnum frá gervitungli, sýnir landrisið með mismunandi litum en rauði liturinn táknar það svæði þar sem land hefur risið mest.

Landrisið frá 18. til 30. janúar. Sjá má litaskalann neðst.HÍ, ÍSOR/VINCENT DROUIN.

Á nýju myndinni hér að ofan táknar rauði liturinn landris yfir 25 millimetra á tímabilinu 18. til 30. janúar. Á eldri myndinni hér fyrir neðan, sem birt var síðastliðinn sunnudag, táknar rauði liturinn landris yfir 15 millimetra á tímabilinu 16. til 24. janúar.

Landrisið á tímabilinu 18. til 24. janúar. Athugið að litaskalinn er ekki sá sami á milli mynda.HÍ, ÍSOR/VINCENT DROUIN.

Jarðskjálftar hafa verið heldur fleiri á svæðinu í dag heldur en í gær og laust fyrir hádegi varð talsverð hrina austan við Svartsengi með stærsta skjálfta upp á 2,5 stig og annan upp á 2,1 stig. Síðdegis höfðu milli 50 og 60 skjálftar mælst á svæðinu frá miðnætti. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2


Tengdar fréttir

Líklegt að fyrirvari á eldgosi verði nokkrar klukkustundir

Kvikan sem er að valda landrisinu í Eldvörpum og Svartsengi er núna talin vera á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur telur líklegt að hægt verði að vara við eldgosi með nokkurra klukkustunda fyrirvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×