Innlent

Mæling gervitungls skýrir áhyggjur manna af Grindavík og Bláa lóninu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rauði bletturinn er beint norður af Grindavík, með fjallið Þorbjörn í miðju. Orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið eru inni á rauða svæðinu.
Rauði bletturinn er beint norður af Grindavík, með fjallið Þorbjörn í miðju. Orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið eru inni á rauða svæðinu. Mynd/Af vef Veðurstofunnar.

Mynd, unnin er úr gögnum frá gervitungli, sýnir rauðan blett á Reykjanesi með fjallið Þorbjörn í miðju. Orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið eru einnig inni á rauða svæðinu og byggðin í Grindavík í jaðrinum.

Myndin var birt á heimasíðu Veðurstofunnar síðdegis og táknar svæðið þar sem land hefur risið mest síðustu vikuna. Í fréttatilkynningu Veðurstofunnar segir að landrisið sé líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi. Með öðrum orðum: Það er undir rauða blettinum sem kvika þrýstir líklegast mest á.

Hér er myndin eins og hún er sýnd í fullri stærð á vef Veðurstofunnar. Svarta línan, frá A til B, sýnir prófílinn á myndinni hér fyrir neðan. Mynd/Af vef Veðurstofu Íslands.

Myndin sýnir jarðskorpuhreyfingar á Reykjanesskaga dagana 18.-24. janúar mældar með InSAR bylgjuvíxlmælingum á myndum frá Sentinel-1 gervitunglinu. Miðja svæðisins þar sem breytingar greinast í myndinni er við fjallið Þorbjörn. Rauði liturinn táknar breytingar yfir 15 millimetra, segir Veðurstofan.

Myndin sýnir breytingar á fjarlægð til gervitungls í millimetrum en fjarlægðarbreytingin tengist bæði landrisi og láréttum færslum jarðskorpunnar. Svarta línan á myndinni fyrir ofan sýnir staðsetningu prófíls sem sýndur er á myndinni hér fyrir neðan. Örvar á myndinni sýna flugstefnu og sjónarhorn gervitungslins. Úrvinnslu gagnanna annaðist Vincent Drouin, jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR.

Prófílmyndin sýnir að landrisið teygir sig yfir um tíu kílómetra breitt svæði. Mynd/Af vef Veðurstofu.

Á prófílnum má sjá að landrisið teygir sig yfir stærra svæði, sem áætla má 10-12 kílómetra breitt, allt vestur frá Eldvörpum og austur að Borgarhrauni og Nátthaga, norðan Ísólfsskála.

Sentinel-1 gervitunglið er á vegum Copernicusaráætlunar Evrópusambandsins, umhverfis- og öryggisvöktunar í Evrópu, sem Ísland er aðili að. Því var skotið á loft árið 2014 en sex Sentinel-gervitungl eru komin á braut umhverfis jörðu. Markmiðið er að þau verði allt að þrjátíu talsins.

 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.