Erlent

Krónprins Sáda sagður hafa „hakkað“ síma ríkasta manns heims

Kjartan Kjartansson skrifar
Bezos (t.v.) og Salman krónprins (t.h.) virðast hafa spjallað á samskiptaforritinu Whatsapp í maí árið 2018. Myndband sem var sent úr númeri sem Salman hefur notað er talið hafa innihaldið spilliforrit.
Bezos (t.v.) og Salman krónprins (t.h.) virðast hafa spjallað á samskiptaforritinu Whatsapp í maí árið 2018. Myndband sem var sent úr númeri sem Salman hefur notað er talið hafa innihaldið spilliforrit. Vísir/EPA/samsett

Skilaboðum sem Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, sendi Jeff Bezos, stofnanda Amazon og ríkasta manns heims, árið 2018 fylgdi spilliforrit sem var notað til að stela gögnum á síma Bezos. Milljarðamæringurinn skildi við eiginkonu sína til magra ára í fyrra í kjölfar þess að bandarískt götublað sagði frá framhjáhaldi Bezos og byggði á gögnum og myndum úr síma hans.

The Guardian hafði eftir heimildarmönnum sínum í kvöld að talið sé að það hafi verið myndbandsskrá sem send var úr Whatsapp-númeri sem Salman notaði til Bezos sem hafi innihaldið spilliforritið. Þeir virðast hafa átt í vinalegum samskiptum á forritinu 1. maí árið 2018.

Blaðið segir að innan nokkurra klukkustunda hafi miklu magni gagna verið stolið úr síma Bezos. Ekki liggi þó fyrir hvaða gögn voru tekin né til hvers þau voru síðar notuð. Sádar hafa neitað því að hafa komið nálægt innbrotinu í síma Bezos.

Ekki er ljóst hvort að innbrot Sáda hafi verið uppruni gagna úr síma Bezos sem National Enquierer, bandarískt götublað sem er hliðhollt Donald Trump Bandaríkjaforseta, komst yfir í fyrra. Blaðið birti umfjöllun um einkalíf Bezos, þar á meðal nektarmyndir sem hann sendi hjákonu sinni. Trump forseti hefur ítrekað ausið fúkyrðum yfir Bezos þegar Washington Post, sem Bezos á, birtir umfjöllun sem forsetanum mislíkar.

Rannsakandi á vegum Bezos sakaði Sáda á sínum tíma um að hafa staðið að innbrotinu og sagðist hafa sent lögregluyfirvöldum sönnunargögn. Hann upplýsti þó ekki hvernig brotist var inn í síma Bezos þá. Hélt hann því fram að Salman krónprins væri vel til vina við David Pecker, forstjóra útgáfufélags National Enquierer. Pecker er sagður hafa ítrekað beitt fjölmiðlum sínum til að hjálpa Trump forseta, meðal annars til að þagga niður ásakanir kvenna um að þær hafi átt í kynferðislegu sambandi við forsetann.

Salman krónprins hefur undanfarin misseri reynt að lappa upp á ímynd íhaldssama konungsríkisins á vesturlöndum. Undan þeirri viðleitni hans fjaraði þegar Sádar myrtu Jamal Khashoggi, blaðamann sem hafð verið í útlegð í Bandaríkjunum, á ræðisskrifstofu í Tyrklandi í október árið 2018. Bandaríska leyniþjónustuna telur að Salman hafi skipað fyrir um morðið en því hafa Sádar hafnað.

Sérfræðingur í málefnum Sádi-Arabíu og andspyrnufólk sem The Guardian ræddi við segjast telja að Salman hafi beint spjótum sínum að Bezos vegna þess að hann er eigandi Washington Post og umfjöllunar blaðsins um Sádi-Arabíu. Khashoggi skrifaði pistla í blaðið sem voru gagnrýnir á stjórnvöld í heimalandinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×