Innlent

Sjö­tugur kennari sem sagt var upp stefnir borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Kennarinn vill að Reykjavíkurborg verði dæmd skaðabótaskyld.
Kennarinn vill að Reykjavíkurborg verði dæmd skaðabótaskyld. vísir/vilhelm

Sjötugur kennari við Breiðholtsskóla í Reykjavík, sem sagt var upp störfum síðastliðið vor þar sem hann var orðinn sjötugur, hefur stefnt Degi B. Eggertssyni fyrir hönd borgarinnar.

Með málinu vill Landssamband eldri borgara láta reyna á það hvort að lagaákvæði sem kveður á um að ríkisstarfsmenn láti af störfum þegar þeir verða sjötugir eigi einnig við um grunnskólakennara sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Fréttablaðið greinir frá málinu í morgun og segir að þess sé krafist að uppsögnin verði dæmd ógild eða að konan fái eina og hálfa milljón króna í miskabætur, auk þess að Reykjavíkurborg verði dæmd skaðabótaskyld.

Í stefnu kennarans segir frá því að samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara eigi starfsmaður að láta af starfi þegar hann hefur náð sjötíu ára aldri án sérstakrar uppsagnar. Er því haldið fram að ákvæðið sé ólögmætt því það brjóti gegn æðri réttindum konunnar um starfsréttindi sem njóti stjórnarskrárverndar.

Í stefnunni kemur jafnframt fram að ákvörðun um uppsögnina sé andstæð markmiðum í skólakerfinu þar sem hún feli í sér að hæfum og faglærðum kennara hafi verið sagt upp. Skortur sé á faglærðum kennurum og ólíklegt að tækist að fylla skarð umrædds kennarans með ráðningu á nýjum kennara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×